Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, þýðandi og ritstjóri fæddist 3. október 1943 og varð stúdent frá MR 1963. Hún lauk BA-próf í íslensku og ensku frá Háskóla Íslands 1968, cand. mag.-próf í íslenskum bókmenntum frá HÍ 1974 og námi í uppeldis- og kennslufræði frá HÍ 1982. Silja starfaði sem stundakennari í íslenskum bókmenntum við HÍ, blaðamaður og gagnrýnandi í lausamennsku. Hún var ritstjóri Tímarits Máls og menningar 1982–1987 og 2004–2008, Þjóðviljans 1989, umsjónarmaður menningarefnis á DV 1996–2003 og ritstjóri á Forlaginu frá 2008.
Meðal helstu ritverka Silju eru barnabókmenntasagan Íslenskar barnabækur 1780–1979 (1981) og ævisögurnar Skáldið sem sólin kyssti, ævisaga Guðmundar Böðvarssonar (1994), Í aðalhlutverki Inga Laxness – Endurminningar Ingibjargar Einarsdóttur (1987) og Bubbi um Bubba Morthens (1990). Hún skrifaði um ljóðagerð frá 1880–2000 í Íslenska bókmenntasögu III-V (1996–2006).
Fyrir Skáldið sem sólin kyssti hlaut Silja Íslensku bókmenntaverðlaunin og líka, ásamt öðrum, fyrir bókina Kjarval (2005).
Silja fékk verðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur 1978 fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Sautjánda sumar Patricks eftir K.M. Peyton og Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðingu sína á Wuthering Heights eftir Emily Brontë (2006). Meðal margra annarra þýðinga Silju má nefna Hroka og hleypidóma eftir Jane Austen (1988), Lífið að leysa eftir Alice Munro (2014) og Grimms ævintýri fyrir unga og gamla (2015); tvær þær síðarnefndu voru tilnefndar til Íslensku þýðingarverðlaunanna.
Silja hlaut viðurkenningu Íslandsdeildar IBBY fyrir fræðslustörf á sviði barnabókmennta 2001 og fálkaorðuna fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta árið 2015.