Brynhildur Þórarinsdóttir er fædd árið 1970 og er afkastamikill og margverðlaunaður barnabókahöfundur. Drjúgur hluti verka hennar eru endursagnir á Íslendingasögunum og hlaut hún meðal annars Norrænu barnabókaverðlaunin 2007 fyrir endursagnir sínar á Njálu, Eglu og Laxdælu.
Brynhildur heldur úti vefnum Íslendingasögur.is fyrir börn og hefur einnig sent frá sér skólaútgáfur af Íslendingasögunum á íslensku og ensku. Af skáldsögum hennar má nefna Leyndardóm ljónsins, en fyrir hana hlaut hún Íslensku barnabókaverðlaunin 2004, og Gulbrand Snata og nammisjúku njósnarana sem var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2018.
Auk þess að sinna skrifum, hefur Brynhildur verið mjög virk á barnabókmenntasenunni. Hún hefur verið formaður SÍUNG og er í forsvari fyrir Barnabókasetur, sem er rannsóknasetur um barnabókmenntir og lestur barna við Háskólann á Akureyri. Þá var hún annar af ritstjórum greinasafnsins Í Guðrúnarhúsi (2005) sem fjallar um verk Guðrúnar Helgadóttur. Hún ritstýrði einnig Tímariti Máls og menningar um skeið.
Brynhildur býr og starfar á Akureyri. Hún gegnir stöðu dósents í íslensku við Kennaradeild Háskólans á Akureyri og var bæjarlistamaður Akureyrar 2006–2007.