Böðvar Guðmundsson fæddist árið 1939. Eftir hann liggur fjöldi ljóðabóka, leikrita, söngtexta og skáldsagna, auk þess sem hann hefur hann þýtt mörg erlend verk fyrir börn og fullorðna, þar á meðal eftir Astrid Lindgren, Michael Ende og Roald Dahl. Þekktastur er hann þó vafalaust fyrir skáldsögurnar Híbýli vindanna (1995) og Lífsins tré (1996), en fyrir þá síðari hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin. Bækurnar segja fjölskyldusögu vesturfarans Ólafs fíólíns og byggir frásögnin að nokkru leyti á bréfum vesturfara, meðal annars úr fjölskyldu Böðvars sjálfs.
Í kjölfarið á þessum vinsælu skáldsögum tók Böðvar saman safn bréfa vesturfara til útgáfu og komu fyrstu tvö bindin af Bréfum Vestur-Íslendinga út árin 2001 og 2002. Þriðja og síðasta bindið kom út haustið 2021. Það er mikið fagnaðarefni að tekist hafi að ljúka þessari miklu og merku ritröð, sem veitir einstaka innsýn í vesturíslenskt samfélag fyrstu áratugina og örlög fólks sem rifið var upp með rótum og sett niður í annarlegt umhverfi sem það aðlagaðist aldrei að fullu.
Böðvar hefur hlotið fjölda viðurkenninga á löngum og afkastamiklum ferli, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin í tvígang, Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar og síðast en ekki síst Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskrar menningar og bókmennta.