Snæbjörn Arngrímsson er fæddur í nóvember árið 1961. Fyrstu æviárin bjó hann á Odda á Rangárvöllum en flutti til Reykjavíkur árið 1964. Hann varð stúdent frá MH árið 1980. Stundaði nám í sálfræði og bókmenntum við Háskóla Íslands.
Samhliða námi stofnaði Snæbjörn bókaforlagið Bjart og hóf síðar einnig bókaútgáfurekstur í Danmörku og setti á laggirnar forlagið Hr. Ferdinand. Síðla árs 2017 seldi Snæbjörn öll forlög sín og hætti bókaútgáfu.
Snæbjörn hefur í gegnum tíðina verið virkur þýðandi og þýtt á annan tug bóka. Fyrsta frumsamda skáldverk hans var barnabókin Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins. Fyrir hana fékk hann íslensku barnabókaverðlaunin árið 2019. Ári síðar kom sjálfstætt framhald, Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf, en sú fékk Barnabókaverðlaun Reykjavíkur. Síðasta bókin í Álftabæjarþríleiknum, Handbók Gullgrafarans, kom út haustið 2021. Í barnabókum sínum skapar Snæbjörn töfrandi og jafnframt svolítið ógnvekjandi ævintýraheim, þar sem vinátta aðalpersónanna Millu og Guðjóns G. Georgssonar er tindrandi leiðarhnoð í spennandi framvindu. Einstakur þríleikur sem bæði börn og fullorðnir hafa tekið ástfóstri við.