Guðrún Hannele Henttinen er fædd 23. október 1956. Hún er textílkennari og menntunarfræðingur, útskrifaðist frá KHÍ með kennarapróf og textílmennt sem valgrein. Fór síðan í framhaldsnám í textílkennarafræðum við Háskólann í Helsinki. Eftir heimkomu frá Finnlandi vann hún við kennslu og verkefni tengd handverki og hönnun og lauk jafnframt MA námi í menntunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 með viðkomu í Concordia háskólanum í Montréal. Eftir útskrift hélt hún fyrirlestrarröð um bútasaumsmenningu og vann í hönnunarverslun og kenndi textílmennt í grunnskóla á víxl.
Undanfarin ár hefur hún lifað og hrærst í prjónaheiminum. Hún hefur rekið Storkinn – garnverslun frá 2008 þar sem boðið er upp á margvísleg námskeið Í prjóni og öðrum hannyrðum. Eftir að vinna við vettlingabókina hófst kveiknaði hugmynd að Íðorðanefnd um hannyrðir sem hefur starfað síðan undir hatti Árnastofnunar. Þar hefur m.a. verið safnað um 500 orðum um prjón á íslensku og þau skilgreind. Í lok árs 2020 kom bókin; Íslenskir vettlingar, 25 nýjar útfærslur á gömlum mynstrum.
Guðrún Hannele er gift Karli Alvarssyni lögfræðingi og þau eiga 4 börn og 14 barnabörn búsett í fjórum löndum.