Guðrún frá Lundi (Guðrún Baldvina Árnadóttir) var fædd í Fljótum í Skagafirði árið 1887 og lést 1975. Hún ólst upp í Lundi í Fljótum og kenndi sig jafnan síðar við þann bæ, en átti heima víðar í Skagafirði. Hún bjó lengi á Ytra-Mallandi á Skaga ásamt manni sínum en árið 1940 fluttu þau til Sauðárkróks og áttu þar heimili síðan.
Guðrún skrifaði mikið í æsku en eftir að hún fullorðnaðist og hóf búskap gafst enginn tími til skrifta. Það var ekki fyrr en hún flutti til Sauðárkróks komin yfir fimmtugt sem hún sneri sér að ritstörfum og fyrsta bók hennar kom út árið 1946, þegar Guðrún var 59 ára. Það var fyrsta bindi Dalalífs, fimm binda skáldsögu sem náði gífurlegum vinsældum. Eftir þetta sendi Guðrún frá sér bók nánast á hverju ári allt fram til 1973; 26 bækur alls.
Efni bóka sinna sótti Guðrún í sveitalífið og nær allar gerast þær í sveit, flestar í kringum aldamótin 1900. Þetta eru sögur um ástir og örlög, með áhugaverðum persónum, skemmtilegum samtölum og fjörlegum frásagnarhætti. Bækurnar skrifaði Guðrún sjálfri sér og öðrum til ánægju og lesendur tóku þeim líka fagnandi og biðu hverrar nýrrar bókar með óþreyju. Sumar bóka hennar eru enn mikið lesnar þótt sagnaheimurinn sé orðinn flestum nokkuð framandi; Dalalífs-bækurnar hafa t.d. verið gefnar út hvað eftir annað og eru enn meðal eftirsóttustu bóka á bókasöfnum landsins.
Framan af nutu bækur Guðrúnar lítils álits meðal gagnrýnenda og bókmenntafólks, en í seinni tíð hafa þær öðlast aukna virðingu og viðurkenningu. Þetta eru þjóðlegar skemmtibókmenntir en um leið raunsæislegar lýsingar á hversdagslífi og daglegu amstri – skrifaðar á tilgerðarlausu alþýðumáli fyrri aldar. Á síðustu árum hafa nokkrar bækur Guðrúnar verið endurútgefnar við afar góðar undirtektir.