Anton Helgi Jónsson fæddist í Hafnarfirði 15. janúar 1955 en flutti tólf ára til Reykjavíkur og hefur verið búsettur þar lengst af ævinnar. Hann gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1974, Undir regnboga, en verulega athygli vakti næsta bók hans sem líka var ljóðabók: Dropi úr síðustu skúr (1979). Skáldsagan Vinur vors og blóma kom út 1982 en ekki varð framhald á skáldsöguskrifum Antons Helga. Ljóðaþýðingar úr belgísku komu út 1991 – og þrátt fyrir titilinn voru það frumsamin ljóð en ekki þýdd. Árið 1994 sýndi Leikfélag Reykjavíkur leikritið Ófælnu stúlkuna eftir Anton Helga í Borgarleikhúsinu og einnig samdi hann leikþætti fyrir Útvarpsleikhúsið en það varð bið á ljóðum. 2006 kom þó út limrukverið Hálfgerðir englar og allur fjandinn sem var að vísu meira grín en alvara en þó forboði þess að Anton Helgi væri farinn að yrkja aftur. 2009 hlaut hann Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt „Einsöngur án undirleiks“ sem vakti mikla athygli, og haustið 2010 kom svo ljóðabókin sem beðið hafði verið eftir í nærri tuttugu ár: Ljóð af ættarmóti.