Andri Snær Magnason, fæddur 1973, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund og BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands. Fyrsta bók hans, Ljóðasmygl og skáldarán, kom út hjá Nykri 1995 og ári síðar kom hann sér rækilega fyrir á íslenskum skáldabekk þegar hann gaf út Bónusljóð hjá verslunarrisanum Bónus og smásagnasafnið Engar smá sögur hjá Máli og menningu. Síðan hefur Andri Snær sent frá sér skáldverk, barnabækur og fræðirit af fjölbreyttu tagi sem ætíð hafa hlotið mikla athygli. Auk þess hefur Andri verið ötull talsmaður fyrir náttúrvernd, ekki síst hefur hann barist gegn virkjunum á hálendi Íslands.
Fyrir Söguna af bláa hnettinum hlaut Andri Snær Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki skáldverka 1999 og síðan hefur þessi töfrandi fjölskyldusaga komið út og ratað á leiksvið í fjölda landa. Nýr söngleikur eftir bókinni var sýndur við miklar vinsældir í Borgarleikhúsinu 2016–2018. Meðal viðurkenninga sem bókin hefur hlotið eru Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin, Janusz Korczak Honorary Award í Póllandi, Green Earth Book Award í Bandaríkjunum og UKLA-verðlaunin í Bretlandi.
Skáldsagan LoveStar hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2002 og fyrir hana var Andri Snær tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þegar sagan kom út í Bandaríkjunum ellefu árum síðar var hún tilnefnd til hinna virtu Phillip K. Dick verðlauna sem veitt eru árlega fyrir vísindaskáldskap á ensku.
Fyrir Draumalandið – Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð hlaut Andri Snær Íslensku bókmenntaverðlaunin í annað sinn, nú í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, og eftir þeirri bók var gerð áhrifamikil kvikmynd sem farið hefur víða um lönd. Íslensku bókmenntaverðlaunin hlaut hann síðan í þriðja sinn fyrir Tímakistuna, þegar þau voru í fyrsta sinn veitt sérstaklega fyrir barna- og unglingabækur.
Bækur Andra Snæs hafa komið út á fjölmörgum tungumálum og hlotið alþjóðlegar viðurkenningar. Andri er jafnframt eftirsóttur fyrirlesari hér heima og erlendis og var meðal frambjóðenda til embættis forseta Íslands árið 2016.