Heimili höfundanna

Algengar spurningar varðandi handritaskil og útgáfuhugmyndir

Ég er með handrit. Hvað geri ég?
Þú sendir okkur handritið í viðhengi ásamt stuttri kynningu. Smelltu hér til að sækja kynningarblaðið sem fylla þarf út. Athugaðu að ef kynningarblaðið fylgir ekki með, verður handritið þitt ekki lesið. Ekki er nauðsynlegt að skila inn útprentuðum handritum á skrifstofuna nema efnið kalli sérstaklega á slíkt, s.s. myndskreytt verk.

Ég er með hugmynd að bók. Hvað geri ég?

Þú mótar hugmyndina þína eins vel og kostur er og kynnir hana skriflega á einu A4 blaði og sendir okkur. Sendu myndir, hlekki eða annað ítarefni með sé þess þörf. Ekki er tekið við hugmyndum að skáldsögum, þar þarf í öllum tilfellum tilbúið handrit.

Einhver góð ráð áður en ég sendi?

Fáðu yfirlestur og ábendingar frá fleiri en einum lesanda áður en þú sendir inn handrit. Góðar bækur spretta ekki úr einum kolli, þær eru margbrotin samstarfsverkefni þó yfirleitt sé bara eitt höfundarnafn á kilinum. Reyndu að fá fleiri en góðvini þína eða fjölskyldu til að lesa, það getur reynst gríðarlega dýrmætt að fá yfirlestur frá „hlutlausum“ lesanda. Vandaðu stafsetningu og frágang. Búðu þig undir langa bið, þetta tekur allt tíma. Ekki senda nýja gerð handritsins á meðan þú bíður eftir svari.

Af hverju fæ ég ekki fund?

Við skoðum innsent efni og hugmyndir áður en fundir eru boðaðir. Ef hugmyndin er góð eða handritið er gott er það tekið fyrir og rætt á útgáfufundi. Þar er tekin ákvörðun um næstu skref, sem oftar en ekki er fundur höfundar með ritstjóra.

Hvað tekur þetta langan tíma?
Forlagið fær tugi handrita til skoðunar í hverjum mánuði. Yfirlestur þeirra tekur tíma, við miðum við 10-12 vikur. Útgáfuferlið sjálft er síðan mun lengra. Það líða margir mánuðir frá því að handrit er fullklárað þar til bók kemur út, ritstjórnarferli getur tekið 3-4 mánuði og umbrot, hönnun og prentun annað eins. Það er því ekki gott að senda inn handrit að jólabók í júlí. Athugið að ekki er tekið við handritum eða útgáfuhugmyndum á tímabilinu 15. júni til 15. október vegna anna á ritstjórn.
Hvað ræður því hvort að bók kemur út?
Innihaldið og möguleikarnir sem við sjáum í hugmyndum hennar, boðskap eða höfundi.
Afhverju hafnið þið handritum?
Fyrir því eru margar ástæður. Handrit eru misjöfn að gæðum, þau geta líkst öðru sem við erum að fást við eða nýbúin að gefa út. Útgáfulistinn er mjög fljótur að fyllast – því miður getum við ekki gefið allt út þó það sé spennandi, fróðlegt og skemmtilegt. Oft eru góðir sprettir í handritum en vantar upp á heildina. Sum þeirra eru mjög illa stafsett og stíluð eða lítt ígrunduð.
Hvers vegna fæ ég ekki ábendingar eða athugasemdir um hvað mætti betur fara?
Okkur gefst einfaldlega ekki tími til slíks, þó við fegin vildum.

Um handritaskil

Forlagið skoðar öll handrit sem því berast. Vinsamlegast sendið handrit ásamt kynningarblaði í tölvupósti á netfangið handrit@forlagid.is. Krefjist efni handrits þess að því sé skilað útprentuðu skal það skilmerkilega merkt eiganda sínum og skilað á skrifstofu Forlagsins. Tilgreint skal þá hvort höfundur þess muni sækja það aftur að lestri loknum. Farið er með handritaskil til Forlagsins sem trúnaðarmál.

Mat hvers handrits tekur allt að 10-12 vikum og vegna kostnaðar við hvern yfirlestur óskum við eftir því að önnur forlög hafi handritið ekki til skoðunar á sama tíma.

Athugið að ekki er tekið við handritum á tímabilinu frá 1. júní til 1. október vegna anna á ritstjórn.

Þeir sem senda inn handrit fá svar en ekki eru skrifaðar umsagnir um handrit. Forlaginu ber ekki skylda til að rökstyðja ákvarðanir útgáfustjóra. Ef handriti er hafnað og ekki er tilgreint þegar það berst Forlaginu að það verði sótt verður handritinu fargað að lestri loknum.

Opnunartímar á Fiskislóð

Virkir dagar 10-18
Laugardagar 11-17
Sunnudagar 12-16

 

Sími í verslun á Fiskislóð 39: 575 5636

Sími á skrifstofu á Bræðraborgarstíg: 575 5600

Fylgstu með á facebook!

2021 © Forlagið | Bræðraborgarstíg 7, 101 Reykjavík | Sími 575 5600 | forlagid@forlagid.is | www.forlagid.is

nýskráning

INNskráning

Nýskráning