Út er komin á vegum Sögufélags Ísfirðinga sjálfsævisaga séra Sigurðar Stefánsson alþingismanns úr Vigur. Vigurklerkurinn, einsog bókin nefnist, er rituð af honum sjálfum um 1920 eftir viðburðaríka ævi og langan stjórnmálaferil. Handrit ævisögunnar hefur verið varðveitt hjá afkomendum hans alla tíð, en kemur nú loksins út á prent. Af því tilefni héldu útgefendur ásamt afkomendum séra Sigurðar útgáfuteiti í Vigur, þar sem bókin var kynnt. Guðfinna Hreiðarsdóttir, sagnfræðingur og formaður Sögufélags Ísfirðinga bjó bókina til prentunar og Jón Þ. Þór sagnfræðingur ritar aðfararorð. Ævisaga Sigurðar Stefánssonar fjallar um mikil umbrotaár í sögu þjóðarinnar, þegar hún barðist frá örbirgð til bjargálna og frá hjálendu til sjálfstæðis. Sigurður var þátttakandi í stjórnmálalífi landsins á þessum tíma og í sögu sinni segir hann kost og löst á hverjum manni og atburðum, einsog þeir komu honum fyrir sjónir. Þykir hann stundum nokkuð berorður í dómum sínum.