Hér segir frá norðanstúlkunni Ragnhildi sem hættir í Menntaskólanum á Akureyri og flytur til Reykjavíkur til að komast nær þeim spennandi atburðum sem þar voru að gerast – ekki síst meðal ungs fólks. Árið er 1968 og Ragnhildur kemst fljótlega í kynni við róttæklinga og samtök þeirra og laðast bæði að þeim og einum fyrirliðanum, Eiríki rauða. En Ragnhildur verður ekki róttæk eingöngu fyrir mátt predikana heldur reynir hún á sjálfri sér erfiðar aðstæður láglaunafólks á þessum kreppuárum. Við fylgjum henni milli ráðningarskrifstofu, leiguhjalla og misjafnra vinnustaða og fáum smám saman breiða mynd af reykvísku samfélagi þessara ára. Þetta er fyndin og fjörug saga sem sækir þrótt sinn meðal annars í æskuminningar Einars Más sjálfs sem fór mjög ungur að sveima í kringum róttæk samtök.