Kárahnjúkar – með og á móti
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2004 | 490 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2004 | 490 kr. |
Um bókina
Í hressilegri og nýstárlegri umfjöllun þessarar bókar um virkjun við Kárahnjúka, stærsta minnisvarða sem nokkur kynslóð Íslendinga hefur reist um sjálfa sig, koma fram helstu efnisþættir og sjónarmið í landnýtingar- og orkustefnu Íslendinga.
Höfundur greinir frá athugunum sínum á sviði orku- og virkjunarmála, heima jafnt sem erlendis, og bendir á ýmis lykilatriði sem huga þarf að þegar stórar ákvarðanir um virkjunarmál eru teknar.
Öllum röksemdum er gert jafnhátt undir höfði og því geta lesendur orðið margs vísari um þá samfélagsumræðu sem Kárahnjúkavirkjun hefur vakið.
Bókina prýðir mikill fjöldi litmynda sem varpa ljósi á umhverfið og þær framkvæmdir sem eiga sér stað á norðausturhluta landsins.
Kárahnjúkar með og á móti er bók sem veitir lesendum ómetanlega yfirsýn yfir málaflokk sem varðar Íslendinga um alla framtíð.
Höfundur segir í inngangi:
„Ég ávarpa þig kumpánlega, lesandi góður, og segi: Velkominn í fjörið! Því hér verður ekki töluð nein tæpitunga og ég segi bara eins og Bubbi vinur minn þegar hnefaleikabardagi er að hefjast: „Það er að
bresta á!“
Bardagi?
Já, eins konar bardagi eða viðureign, senna, þar sem barist er með orðum og rökum, því mjög gagnstæð sjónarmið takast á. Að því leyti má líkja þessari sennu við málflutning þar sem sækjandi og verjandi flytja mál sitt með nokkrum réttarhléum og vitnaleiðslum inni á milli. Skoðanir kunnáttumanna um umhverfismál, virkjanir og þjóðgarða spanna stórt svið, allt frá þeirri fullyrðingu hörðustu fylgjenda Kárahnjúkavirkjunar að hún sé stærsta og jákvæðasta hagsmunamál Íslendinga um þessar mundir til þeirrar skoðunar margra
andstæðinga hennar að hún verði stærsta umhverfishneyksli Evrópu á þeim tíma þegar hún verður fullgerð.
Á milli þessara andstæðu póla eru síðan margir sem hafa fjölbreytilegar skoðanir á einstökum atriðum umhverfismála. Til hagræðis er í bókinni talað um virkjunarsinna og umhverfissinna þótt vitað sé að í báðum hópum telja menn sig vera hvort tveggja eða fara milliveg í skoðunum sínum þótt þá greini á í ýmsu sem varðar markmið og leiðir.
Í bókinni er ekki pláss til að greina frá öllum skoðunum um málið, heldur verða ítrustu áherslur á báða bóga látnar vegast á að svo miklu leyti sem hægt er að finna þeim rök. Kann ýmsum að finnast að þar tíðkist breið spjót, en það er síðan hvers lesanda að vega og meta rök og mótrök. Þessi rök og mótrök hef ég tínt í sarpinn undanfarin ár og legg mig allan fram fyrir hönd beggja málsaðila að skipa þeim á andstæðar blaðsíður í bókinni.
Á báða bóga reyni ég auk þess að tína til þýðingarmikil atriði, sem sum hver hafa ekki áður verið sett fram, og reyni með því að smíða sem best vopn fyrir báða aðila. Einnig leitast ég við að stíga sums staðar út úr nútímanum og horfa á málið eða ýmsa þætti þess utan frá eða frá víðum sjónarhornum í tíma og rúmi. Sums staðar verður jafnvel tæpt á atriðum sem í nútímanum þykir vart ástæða til að fjalla um eða hafa verið talin afgreidd. Þetta er gert til þess að bókin geti hugsanlega komið að einhverjum notum í framtíðinni fyrir þá sem þá vilja skoða þetta mál og önnur því skyld. Vegna þess hve Kárahnjúkavirkjun er viðamikið verkefni verður hún óhjákvæmilega miðpuntur álitamála um virkjunarmál og ekki er hægt að fjalla um hana öðruvísi en í samhengi við heildarviðhorf í landnýtingarmálum og helstu álitamál varðandi landnýtingu. Að þessu leyti felur þetta rit í sér viðleitni til að safna saman á einn stað helstu staðreyndum og sjónarmiðum í landnýtingarmálum.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta verk eigi eftir að verða umdeilt og gagnrýnt en ég vona þó að betur sé af stað farið en heima setið og verður að arka að auðnu með það.“
Bókin er 120 blaðsíður í stóru broti, öll litprentuð og prýdd fjölda mynda.