Karlmenn sem hneigðust til sama kyns fyrr á öldum áttu ekki möguleika. Þeir báru þær þungu byrðar að geta aldrei opinberað tilfinningar sínar, það eina sem þeir heyrðu um “svona” menn var að þeir væru meðal annars úrhrök og aumingjar sem legðust jafnvel á börn. Alla söguna voru þeir niðurlægðir og tilheyrðu hvergi og er nokk sama hvar gripið er niður í sögunni, hommar voru ekki til. Hugmyndin með þessari bók er að veita hommum fortíðar uppreist æru með því að draga fram í dagsljósið jafnt hetjur íslendingasagna, saklausa smaladrengi, ástandsstráka, skáld og aðra sem báru þær byrðar að elska út fyrir normið. Lesið er á milli lína í gömlum sögum, munnmælum, dagbókarbrotum, blaðaumfjöllunum, rannsóknum og síðast en ekki síst munnlegum heimildum og viðtölum frá ástandsárunum þar sem skáphurðir opnuðust í fyrsta sinn og menn fengu tækifæri til að gægjast út. Bókin er ríkulega myndskreytt af myndlistarkonunni Írisi Auði Jónsdóttur.
Umsagnir
Engar umsagnir komnar