Biskupa sögur III: Íslenzk fornrit XVII
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 1998 | 493 | 5.390 kr. |
Biskupa sögur III: Íslenzk fornrit XVII
5.390 kr.
Bæta á óskalistaEr á óskalista Bæta á óskalista
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 1998 | 493 | 5.390 kr. |
Um bókina
Árna saga biskups segir af ævi og kirkjustjórn Árna Þorlákssonar sem stýrði Skálholtsbiskupsdæmi á tímabilinu 1269–98. Hann var fæddur að Svínafelli 1237 af ætt Síðumanna, nam fræði af Brandi Jónssyni ábóta í Þykkvabæ. Hann sá í Árna „mikinn atgervismann í hagleik og riti og hvassan í skilningi til bóknáms.“ Árni var konunghollur og vinur erkibiskups, því oft í förum milli Íslands og Noregs. Hann lést í Björgvin 17. apríl 1298. Saga hans nær til 1291, sögulok eru líklega týnd. Meginásar Árna sögu snúast annars vegar um deilur kirkjuvalds og leikmannavalds á Íslandi um forræði á kirknaeignum, svokölluð staðamál síðari, og hins vegar um lögtöku Jónsbókar á alþingi 1281. Sagan er sögð af sjónarhóli klerkastéttar og vilhöll biskupi enda talin samin á öndverðri 14. öld af frænda hans og eftirmanni á Skálholtsstóli, Árna Helgasyni, sem var lærdómsmaður og gjörkunnugur mönnum og málefnum í biskupsdæminu. Heimildir sögunnar eru annálar og skjöl úr skjalasafni Skálholts auk frásagna samtíðarmanna Árna biskups. Sagan er varðveitt í handritum sem síðasti þáttur Sturlunga sögu og ber mörg sömu einkenni í skörpum mannlýsingum og lifandi frásögnum af atburðum, en framsetning er þrungin guðfræðilegum skilningi á hlutskipti manna. Árna saga er ein mikilvægasta heimild um norsk-íslensk stjórnmál þessa tímabils.
Lárentíus saga fjallar um ævi Lárentíusar Kálfssonar sem var biskup á Hólum 1323–30. Hún er varðveitt í tveimur norðlenskum skinnhandritum frá 16. öld og munar töluverðu í efnisvali, en stíll hvorstveggja er hinn sami, hlýr frásagnarstíll, auðugur af skopskyni. Sagan er sögð af lærisveini Lárentíusar og hollvini, Einari Hafliðasyni presti á Breiðabólstað í Vesturhópi 1344–93. Fyrst segir af æsku Lárentíusar og Noregsvist hans. Þar nam hann kirkjulög og þjónaði Ólafskirkju í Niðarósi, átti ástarævintýri og fyrir komu kátleg atvik, en jafnframt leið Lárentíus þrautir. Hann fór sendiför á vegum erkibiskups til eftirlits kristnihaldi á Íslandi, féll í ónáð Jörundar Hólabiskups, sigldi aftur til Noregs og var kastað í myrkvastofu. Andstreymi bar Lárentíus með þolinmæði, hann var settur aftur í skip til Íslands, fór síðan um og kenndi í klaustrum, gerðist klausturbróðir á Þingeyrum og hlaut loks biskupstign. Sagan er studd annálagreinum og skjölum og er samtíðarheimild um samskipti Íslendinga og Norðmanna, klausturlifnað, bókagerð, dansleiki, tónmennt, daglega hætti og stjórnsemi Hólabiskups.
Söguþáttur Jóns Halldórssonar biskups. Jón Halldórsson var af norskum ættum, skólaður í París og Bologna. Hann var biskup í Skálholti 1322–39. Þátturinn er varðveittur í miðaldahandritum sem geyma siðbætandi ævintýri eða skemmtunarsögur, en Jón biskup mun hafa samið dæmisögur og notað í predikunum. Jón biskup kemur við Lárentíus sögu og var vígslufaðir höfundar hennar. Þátturinn er í anda íslenskra biskupasagna; bregður birtu á ævi góðs manns öðrum til trúbótar.
Biskupa ættir skiptast í tvo þætti. Annar er samtíningur um ættir á norðanverðu Íslandi á 13. og 14. öld og koma sumir þar nefndir við Lárentíus sögu, aðrir við Árna sögu. Seinni þátturinn á efnislega samleið með Hungurvöku; þar eru taldir fimm fyrstu biskupar í Skálholti í tímaröð og gerð grein fyrir ætterni hvers þeirra (sbr. bls. 28). Þættirnir eru varðveittir í handriti frá 14. öld og segist ritari skrifa þennan ætthring „til þess að þeim er eftir oss koma verði kunnugur sinn áttbogi sér til skemmtanar og að eigi falli úr minni dýrra manna ættir.“
Guðrún Ása Grímsdóttir gaf út með inngangi og skýringum.