Eyfirðinga sögur: Íslenzk fornrit IX
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2001 | 324 | 5.390 kr. |
Eyfirðinga sögur: Íslenzk fornrit IX
5.390 kr.
Bæta á óskalistaEr á óskalista Bæta á óskalista
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2001 | 324 | 5.390 kr. |
Um bókina
Víga-Glúms saga gerist á 10. öld en er rituð á fyrra hluta 13. aldar. Sagan fylgir hetju sinni frá bernsku til grafar. Glúmur er seinn í æsku og sætir yfirgangi af hálfu venslamanna. Hann siglir utan til Noregs, sækir heim móðurföður sinn og drýgir hetjudáð. Þegar til Íslands kemur fellir hann fjandmann sinn og hefst til metorða heima í héraði. Í tuttugu vetur er hann síðan mestur höfðingja í Eyjafirði og aðra tuttugu svo að engir voru meiri en til jafns við hann. Hann beitir ýmsum ráðum til að halda völdum og varðveita frið, en bíður að lokum ósigur er upp kemst að hann hefur svarið tvíræðan eið. Hrekst hann út í Öxnadal og andast þar blindur í hárri elli, þrem vetrum eftir kristnitöku.
Ögmundar þáttur dytts segir frá kænlegri hefnd Ögmundar, frænda Víga-Glúms, fyrir svívirðu sem honum var gerð úti í Noregi. En merkastur þykir þátturinn fyrir það að honum fylgir frásögn um Gunnar helming þar sem lýst er Freysdýrkun í Svíþjóð. Svarfdæla saga er héraðssaga Svarfdæla á 10. öld og greinir frá miklum deilum og vígaferlum. Í sinni varðveittu mynd er sagan ung og ýkjufull, en geymir ýmis forn og merkileg minni, m.a. átakanlegar frásagnir af hinni ógæfusömu Yngvildi fagurkinn.
Þorleifs þáttur jarlsskálds tengist Svarfdælu, því að Þorleifur var bróðir Yngvildar fagurkinnar. Þátturinn er fremur unglegur, ritaður um 1300 eða á fyrra hluta 14. aldar. Hann geymir ýmis ævintýraleg minni, og er það frægast að Þorleifur kveður kvæðið Jarlsníð um Hákon jarl Sigurðarson (d. 995) og veldur með því mögnuðum gerningum í höllu jarls.
Valla-Ljóts saga er eins konar framhald Svarfdælu, greinir frá deilum Eyfirðinga og Svarfdæla, einkum Guðmundar ríka á Möðruvöllum og Ljóts Ljótólfssonar á Völlum.
Sneglu-Halla þáttur er bráðfyndinn og skemmtilegur. Hann er varðveittur í tveimur mismunandi gerðum í Morkinskinnu og Flateyjarbók. Hann hermir frá vist Halla við hirð Haralds harðráða, skiptum hans við konunginn og hirðmenn hans. Halli er orðheppinn og ráðslyngur og ber jafnan hærra hlut við hvern sem hann á að skipta.
Þorvalds þáttur tasalda og Þorgríms þáttur Hallasonar lýsa skörulegri framgöngu Íslendinga með konungum í Noregi.
Jónas Kristjánsson gaf út með inngangi og skýringum.