Guðbergur Bergsson látinn

Guðbergur Bergsson lést mánudagskvöldið 4. september á heimili sínu í Mosfellsbæ, eftir skammvinn veikindi. Guðbergur var einn dáðasti, áhrifamesti og umdeildasti rithöfundur síðari ára á Íslandi.

Guðbergur fæddist þann 16. október árið 1932 í Grindavík. Að loknu námi í kennslufræðum frá Kennaraskóla Íslands, hélt hann til náms á Spáni og lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu árið 1958, frá La Universidad de Barcelona. Fyrsta skáldsaga Guðbergs, Músin sem læðist, kom út árið 1961 en sama ár var ljóðabókin Endurtekin orð einnig gefin út. Eftir það sendi hann frá sér fjölda bóka af ýmsum toga, smásögur, skáldsögur, barnabækur, skáldævisögur og fleira. Auk þess skrifaði hann greinar um bókmenntir, listir og þjóðfélagsmál í dagblöð og tímarit. Hann var afkastamikill þýðandi úr spænsku og portúgölsku og átti mikilvægan þátt í að kynna spænsku- og portúgölskumælandi höfunda hér á landi.

Bækur Guðbergs hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og skáldsagan, Svanurinn, hefur vakið mikla athygli víða um heim. Kvikmynd Ásu Hjörleifsdóttur sem byggð er á bókinni var frumsýnd árið 2017, en kvikmynd gerð eftir skáldsögunni Missi er einnig væntanleg.

Guðbergur hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín og var sæmdur Heiðursorðu Spánarkonungs (Riddarakross afreksorðunnar). Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin tvisvar; fyrst árið 1991 fyrir skáldsöguna Svaninn, og aftur 1997 fyrir Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar: skáldævisaga. Árið 2004 hlaut Guðbergur Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar en tveimur árum síðar var hann tilnefndur til hinna virtu ítölsku Nonino-verðlauna fyrir skáldsögu sína Svaninn.

Eftirlifandi sambýlismaður Guðbergs er Guðni Þorbjörnsson, flugmaður og framkvæmdastjóri ARTPRO ehf. Þeir hafa í rúman áratug búið í Mosfellsbæ og Berlín, auk þess að eiga aðsetur í Reykjavík, Grindavík og Madrid. Saman eiga þeir Bengal kettina Pútín og Picasso.

Forlagið sendir aðstandendum Guðbergs og vinum innilegar samúðarkveðjur.

 

Opnunartímar á Fiskislóð

Virkir dagar 10-18
Laugardagar 11-17
Sunnudagar 12-16

 

Sími í verslun á Fiskislóð 39: 575 5636

Sími á skrifstofu á Bræðraborgarstíg: 575 5600

Fylgstu með á facebook!

2021 © Forlagið | Bræðraborgarstíg 7, 101 Reykjavík | Sími 575 5600 | forlagid@forlagid.is | www.forlagid.is

INNskráning

Nýskráning

nýskráning