TMM 1. hefti 2014

Útgefandi: MM
Gerð ÚtgáfuárSíðurVerðMagn
Mjúk spjöld 2014 144 1.960 kr.
spinner

TMM 1. hefti 2014

Útgefandi : MM

1.960 kr.

Tímarit Máls og menningar 1/2014
Gerð ÚtgáfuárSíðurVerðMagn
Mjúk spjöld 2014 144 1.960 kr.
spinner

Um bókina

Í grein sinni, Áttu eld, sem þegar hefur vakið mikla athygli, notar Svanhildur Óskarsdóttir tækifærið sem hátíðarhöld síðasta árs á afmæli Árna Magnússonar veittu til þess að beina sjónum að því hvernig Íslendingar búa að handritunum sem þeir fengu frá Dönum á síðustu öld, og hvernig sumir ráðamenn virðast líka á það sem óþarfa fjárútlát að sinna þessum þjóðargersemum sem þeim ber og veita þeim sómasamlegan aðbúnað.

Hannes Lárusson skrifar um annars konar þjóðararf: Íslenska bæinn, sögu hans og þróun, setur meðal annars fram skemmtilega kenningu um að skorturinn á miðju sé eitt megineinkenni á meðhöndlun Íslendinga á rými og nokkurs konar fagurfræðileg forskrift þeirra. Úlfhildur Dagsdóttir fjallar líka á sína vísu um menningararf okkar, því að hún beinir sjónum að meðferð bandarískra hasarblaðahöfunda og seinna kvikmyndagerðarmanna í Hollywood á heiðnum goðum á borð við Þór og Loka.

Annars konar myndlistarumfjöllun er svo að finna í grein Ólafs Gunnarssonar rithöfundar um málverk Sigurðar Örlygssonar þar sem skrifað er af ástríðu og ást um verk sem lýsa miklum átökum og harmi.

Stefán Steinsson læknir skrifar af leiftrandi fjöri um þýðingu sína á þeim gríska föður sagnfræðinnar, Heródótusi, sem kom út fyrir síðustu jól en Þorsteinn Antonsson stundar öllu yngra sagnfræðigrúsk þegar hann hefur grafið upp bréf sem Steinn Steinarr skrifaði Erlendi í Unuhúsi.

Þórunn Erlu Valdimarsdóttir birtir líka gamalt efni úr fórummóður sinnar, Erlu Þórdísar Jónsdóttur, en fyrir síðustu jól sendi Þórunn frá sér verðlaunabókina Stúlka með maga, þar sem Erla móðir hennar er í senn sögumaður og aðalpersóna.

Jón Óskar Sólnes deilir með okkur merkilegri lífsreynslu frá Sri Lanka þar sem hann starfaði um hríð við friðargæslu. Að auki eru sem fyrr sögur og ljóð eftir ýmsa höfunda í heftinu og einnig ýtarlegir ritdómar.

Ritstjóri er Guðmundur Andri Thorsson.

Tengdar bækur