Þingvellir hafa verið vettvangur margra merkustu atburða Íslandssögunnar í 1100 ár. Þeir eru einnig meðal merkustu staða landsins frá sjónarhóli náttúrufræðinnar, enda er þar að finna eitt af furðulegustu og sérkennilegustu vatnasvæðum heims. Ummerki um flekaskil milli Evrópu og Ameríku eru hvergi augljósari og þar mætast austur og vestur í gróðri og dýralífi.

Í þessari glæsilegu og vönduðu bók um vatnið og vellina er fjallað um svæðið frá ýmsum hliðum. Fremstu vísindamenn okkar, hver á sínu sviði náttúrufræðinnar, stunduðu viðamiklar rannsóknir þar um aldarfjórðungs skeið og segja hér frá mótun svæðisins, jarðfræði, veðurfari, gróðri og dýralífi. Óhætt er að fullyrða að Þingvallavatn og umhverfi þess sé nú eitthvert best kannaða vistkerfi heimsins.

Ferli vatnsins frá upptökum í Langjökli og flæði þess undir hraunskildi, uns það sprettur fram um sprungur á botni Þingvallavatns, eru gerð ítarleg skil. Greint er frá órjúfanlegum tengslum ólífrænnar náttúru við einstakt jurta- og dýralíf vatnsins sem er enn að þróast, eins og bleikjuafbrigðin þar bera vott um.

Sérstakir kaflar eru um Sogið og vistkerfið í heild og loks er fjallað um verndun Þingvalla og Þingvallavatns.

Bókina prýðir mikill fjöldi ljósmynda, skýringarmynda og korta. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2002.

Nú fáanleg á ensku