Sigrún Pálsdóttir hlýtur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins

Sigrún Pálsdóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2021 fyrir bók sína Delluferðin. Verðlaunaafhending fór fram í Brussel þar sem tíu rithöfundar tóku á móti verðlaununum.

Úr umsögn dómnefndar:
„Delluferðin er skrifuð af listfengi höfundar sem hefur náð gríðarlegu valdi á bæði formi og stíl. Hér er sögð saga stúlkunnar Sigurlínu Brandsdóttur sem heldur heimili fyrir föður og bróður í Reykjavík undir lok 19. aldar. Faðir hennar hefur umsjón með fornminjasafni sem er til húsa í Alþingishúsinu og auk þess að sjá um heimilið er dóttirin hægri hönd föður síns við vinnuna. Fyrir röð tilviljanna leggur hún af stað út í heim þar sem svo ótrúleg ævintýri bíða hennar að jafnvel má segja að skáldverkið stökkvi milli bókmenntagreina og úr sögulegri skáldsögu yfir í melódrama. Hér er sannarlega ekki á ferðinni hefðbundinn þroskasaga heldur er miskunnarlaus snúið upp á allar hefðir. Frásögnin er knöpp, engu er ofaukið og hálfkveðnar vísur æsa upp lyst lesandans sem þarf að hafa sig allan við til þess að halda í við söguna sem rúllar áfram án afláts, nemur aldrei staðar, kemur sífellt á óvart og skýtur að lokum öllum væntingum um hefðbundin sögulok ref fyrir rass. Menningarleg sjálfsmynd þjóðar er hér í mótun, þjóðar sem rétt fyrir aldamótin 1900 var ein sú vanþróaðasta og fátækasta í Evrópu. Hvernig fá atburðir sögulegt gildi? Hvernig verða menningarverðmæti til? Hér er allt undir; þjóðararfurinn og þeir brauðfætur sem söguleg sýn hvers samfélags stendur á, en einnig stéttarskipting, staða konunnar, staða Íslands, staða erlends vinnuafls í New York undir lok 19. aldar og síðast en ekki síst skáldsagan sjálf.

Skáldverkið er í senn frumlegt og nútímalegt en um leið afskaplega aðgengilegt og skemmtilegt.“

Opnunartímar á Fiskislóð

Virkir dagar 10-18
Laugardagar 11-17
Sunnudagar 12-16

 

Sími í verslun á Fiskislóð 39: 575 5636

Sími á skrifstofu á Bræðraborgarstíg: 575 5600

Fylgstu með á facebook!

2021 © Forlagið | Bræðraborgarstíg 7, 101 Reykjavík | Sími 575 5600 | forlagid@forlagid.is | www.forlagid.is

INNskráning

Nýskráning

nýskráning