Dalalíf 1

Dalalíf kemur út á ný!

„Engum sem farið hefur um Hrútadal dylst það að hann er með fegurstu sveitum landsins.“

Svo hefst Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi. Sagnabálkurinn nýtur enn mikilla vinsælda, sjötíu árum eftir að hann hóf göngu sína, og nú er stefnt að því að endurútgefa bækurnar í nýjum og glæsilegum búningi.

Fyrsta bók Guðrúnar kom út þegar hún var 59 ára. Enginn þekkti höfundinn. Íbúar Sauðárkróks vissu ekki að hægláta feimna konan á Freyjugötunni sæti við skriftir og vinsældir hennar næstu árin komu öllum í opna skjöldu. Hún setti hvert sölu- og útlánsmetið á 6. og 7. áratugnum og var áratugum saman sá íslenski rithöfundur sem var mest lesinn.

Dalalíf kom fyrst út í fimm bindum og ber hvert bindi sinn undirtitil. Farið er eftir þeirri skiptingu hér en útgáfan hefur verið yfirfarin og leiðrétt. Til stendur að gefa út fyrstu tvö bindi Dalalífs samhliða strax í næstu viku, 3. maí.

Fyrsta bindið, Æskuleikir og ástir, kom fyrst út 1946. Lesendur tóku fagnandi á móti lifandi persónum, skörpum sálfræðilegum athugunum, skemmtilegum samtölum og fjörlegum frásagnarhætti, Í öðru bindinu, Alvara og sorgir, dregur höfundur upp skýra og áhrifamikla mynd af ólíkum lífskjörum og ólíkum hjónaböndum.

Guðrún fæddist þann 3. júní 1887 og ólst upp í hópi ellefu systkina. Á heimilinu var ágætur bókakostur sem vafalítið hefur vegið uppá móti stuttri skólagöngu. Hún byrjaði að skrifa sögur strax um fermingu en brenndi öll skrif sín þegar hún gifti sig. Hún hélt þó eftir nokkrum blöðum úr Dalalífi og sagði í viðtölum að sú saga hefði lifað með sér lengi. Guðrún og maður hennar, Jón Þorfinnsson, stunduðu búskap til 1939 en fluttu þá til Sauðárkróks. Þar gafst Guðrúnu loks tími til að skrifa.

Opnunartímar á Fiskislóð

Virkir dagar 10-18
Laugardagar 11-17
Sunnudagar 12-16

 

Sími í verslun á Fiskislóð 39: 575 5636

Sími á skrifstofu á Bræðraborgarstíg: 575 5600

Fylgstu með á facebook!

2021 © Forlagið | Bræðraborgarstíg 7, 101 Reykjavík | Sími 575 5600 | forlagid@forlagid.is | www.forlagid.is

INNskráning

Nýskráning

nýskráning