Höfundur: Birgitta Hrönn Halldórsdóttir

Út við svala sjávarströnd er bæði falleg og skemmtileg saga, sem er full af átökum og ást – og er hrein unun að lesa og upplifa.

Út við svala sjávarströnd gerist einhverntíma á fyrri hluta síðustu aldar, líklega fyrstu áratugum hennar. Þar segir frá litlu sjávarplássi og sveitinni í kring og ýmsum atburðum þar, en óveðursnótt eina bankar ung stúlka uppá hjá bóndahjónum og fæðir barn sonar þeirra. Morguninn eftir finnst svo nágranni hengdur og í ljós kemur að miklum fjármunum hefur verið rænt af honum. Stúlkan er dóttir ríkasta mannsins í plássinu, eiganda útgerðarinnar, en hann hafði sent hana að heiman vegna ástar hennar á fátækum bóndasyni.

Sagan er einföld en læsileg eins og bækur Birgittu eru, hún teiknar upp persónur og aðstæður hröðum en öruggum dráttum og fangar lesanda um stund inn í þennan harða heim fortíðarinnar. Þó eru nútímalegir tónar greinilegir, því sem fyrr leggur Birgitta áherslu á sterkar kvenhetjur, hér er það dönsk frú sem er orðin hundleið á því að vera stofustáss sem tekur til sinna ráða.