Það er komin halastjarna er safn nýrra barnaljóða eftir tíu norræna höfunda sem jafn margir teiknarar skreyta glæsilega. Bókin kom út samtímis á sex tungumálum í sex löndum vorið 2003. Fulltrúar Íslands eru Þórarinn og Sigrún Eldjárn en Böðvar Guðmundsson þýðir ljóð erlendu skáldanna á íslensku. Eitt ljóð eftir hvert skáld er birt á frummálinu í öllum útgáfunum og bókinni fylgir geisladiskur þar sem skáldin lesa tvö af ljóðum sínum á sinni tungu.

Bókin er afrakstur samstarfs sex norrænna útgefenda en Norræna ráðherraráðið, Norræni þýðingarsjóðurinn og Sjóður til styrktar samvinnu milli Noregs og Danmerkur studdu verkefnið rausnarlega.