Höfundur: Páll Valsson, ritstj.

Skírnir er elsta og eitt virtasta menningartímarit á Norðurlöndum. Þar hafa birst ritgerðir og styttri greinar um bókmenntir, sagnfræði, heimspeki, þjóðfélagsmál og stjórnmálafræði, vísindi, listir og þjóðlegan fróðleik, auk ítarlegra ritdóma um bækur.

Viðfangsefnin eru einatt skoðuð í sögulegu og heimspekilegu ljósi og leitast er við að brjóta til mergjar jöfnum höndum málefni samtíðar og liðins tíma með gagnrýnu hugarfari. Skírnir kemur út tvisvar á ári, að vori og hausti. Ritstjóri er Páll Valsson.

Nýr Skírnir, vorheftið 2019 er komið út. Listamaður heftisins er Hrafnhildur Shoplifter, fulltrúi Íslands í Feneyjum þetta vor, og splunkuný grein um hana eftir Aldísi Snorradóttur, en auk þess eru greinar eftir Hannes Pétursson, Bergsvein Birgisson, Ragnar Inga Aðalsteinsson, Valdimar Hafstein og Egil Viðarsson, Gunnar Harðarson, Sigríði Sigurjónsdóttur, Auði Aðalsteinsdóttur og skáld Skírnis er eitt athyglisverðasta ungskáld landsins um þessar mundir, Fríða Ísberg.