Óraplágan

Útgefandi: HÍB
Gerð ÚtgáfuárSíðurVerðMagn
Innbundin 2007 411 2.990 kr.
spinner

Óraplágan

Útgefandi : HÍB

2.990 kr.

Óraplágan
Gerð ÚtgáfuárSíðurVerðMagn
Innbundin 2007 411 2.990 kr.
spinner

Um bókina

Slóvenski heimspekingurinn, samfélagsrýnirinn og sálgreinandinn Slavoj Žižek hefur vakið heimsathygli fyrir gáskafull skrif sín og fyrirlestra þar sem allt á milli himins og jarðar, og meira til, ber á góma. Nú hefur Žižek komið tvisvar hingað til lands og flutt fjölsótta fyrirlestra um fjölbreytileg hugðarefni sín. Það er samdóma álit fólks að hrein unun sé að hlusta á þetta menningarfyrirbæri – því að það er hann – og enn æðisgengnari upplifun að lesa bækur hans. Sitt sýnist hverjum um sumar óútreiknanlegar tengingar hans, t.a.m. hugmyndafræðina sem hann telur birtast í hönnun klósettskála, en oft virðist hálfur tilgangurinn einmitt vera að skilja fólk eftir ýmist í ráðþrota spurn eða yfirgengilegri hrifningu. Žižek notar skírskotanir í alkunnar kvikmyndir, poppstjörnur, stjórnmál, heimspeki, vísindi, bókmenntir og svo mætti lengi telja, til að framkalla eina allsherjar rússíbanareið ólíkra hugmynda.

Óraplágan, í þýðingu Hauks Más Helgasonar á bók Žižeks sem út kom 1997 undir nafninu The Plague of Fantasies, er alls engin undantekning frá þessari lofsamlegu lýsingu. Žižek tekur sér fyrir hendur að greina hina hugmyndafræðilegu óra sem óhjákvæmilega umlykja okkur öll í nútímasamfélagi. Hann telur það vera djúpstæðan misskilning, og mjög útbreiddan, að við lifum á tímum sem eru lausir við alla heildstæða hugmyndafræði. Algengt er að hugsuðir fullyrði að hugmyndafræði, t.d. kommúnismi og frjálshyggja, heyri fortíðinni til og að nú svífum við um í hugmyndafræðilegu tómarúmi. Žižek er á öðru máli og telur þetta vera einbera óra. Sannfæringin um útdauða hugmyndafræðinnar er einmitt óræk vísbending þess að við lifum í þéttriðnara neti hugmyndafræði en nokkru sinni. Hugmyndafræðina má m.a. finna í hönnun klósettskála, ólíkum hefðum kvenna í skapahárarakstri, þeim kynlífsstellingum sem okkur eru hugleiknastar og öryggisleiðbeiningum í flugvélum. Í slíkum hversdagslegum fyrirbærum má finna þjóðareinkenni og hugmyndafræði sem skilur að okkur og hina, sem gera hlutina öðru vísi og geta því verið viðfang útskúfunar og ofsókna. Við kennum „hinum“ (sem getur vísað til hinna ýmsu minnihlutahópa) um það sem miður fer og höfum á tilfinningunni að þeir séu djöflar sem toga í spottana á bak við tjöldin. Óhugsandi er að flýja undan þessari hugmyndafræði. Hér er á ferðinni stórskemmtileg bók sem kemur hugmyndum lesandans á sífellda hreyfingu.

Verkinu fylgir skemmtilegur inngangur sem setur Órapláguna m.a. í samhengi við önnur rit Žižeks og gerir nokkra grein fyrir megindráttunum í margslunginni heimspeki hans.

Tengdar bækur