Höfundur: Guðbergur Bergsson

Hvert leitar hugurinn þegar komið er á leiðarenda og fátt er framundan nema eilífið sjálf? Til liðinnar tíðar … sem geymir misfagrar minningar.

Ekkert rífur þögnina nema miskunnarlaust suðið í katlinum, hversdagslegur undirleikur við uppgjör einmana manns við tilveru sína, ástina eða ástleysið sem nær yfir mörk lífs og dauða – og ellina, það hlutskipti sem allra bíður þegar líkaminn hrörnar og þrekið þverr.

Guðbergur Bergsson veitir hér ögrandi og óvænta sýn inn í þá hversdagsheima sem allir þekkja en hver og einn fetar á sinn einstaka hátt. Missir er saga sem afhjúpar einstaklinginn gagnvart óhjákvæmilegum örlögum sínum.

Bókin var gefin út  innbundin í þúsund tölusettum og árituðum eintökum og geisladiskur með upplestri höfundar á verkinu fylgir.

Valin besta bók ársins 2010 af gagnrýnendum Morgunblaðsins, Kolbrúnu Bergþórsdóttur og Árna Matthíassyni: „Guðbergur hefur hér meistaraleg tök á efninu og frásögninni allri. Missir er tvímælalaust eitt af hans áhrifameiri verkum, knappt og meitlað og vekur lesendann til umhugsunar.“