Hendur mínar eru blóði drifnar. Það er hins vegar ekki morðið sem ég framdi í kvöld sem þjakar samvisku mína mest, heldur afleiðingarnar. Ég veit ekki hversu margir munu deyja, en þeir verða fleiri. Og ábyrgðin er mín. Því ég drap Mími.

Freyja er komin til Vanheima þar sem gljáfægð háhýsi gnæfa yfir skínandi hreinum götum og íbúarnir lifa við allsnægtir. En lífið í Ríkinu er ekki eins slétt og fellt og virðist á yfirborðinu. Hvað á sér raunverulega stað í Hofinu? Og hverjir eru hinir Fingralausu? Þegar Freyju berst bréf frá vini sem hún taldi vera látinn stendur hún frammi fyrir ákvörðun sem gæti markað endalok heimsálfunnar Íslands. Á hún að heiðra föður sinn, forsetann, eða fylgja eigin samvisku?

Djásn er hörkuspennandi framtíðartryllir þar sem Freyju saga er leidd til lykta. Sif Sigmarsdóttir hefur sent frá sér vinsælar unglingabækur og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir síðustu bók sína: Freyju saga – Múrinn.