Höfundur: Garðar Sverrisson

Býr Íslendingur hér? er ein áhrifamesta ævisaga síðustu áratuga hér á landi. Hún geymir sögu Leifs Muller, kaupmannssonar úr Reykjavík sem fæddur var 1920 og hélt út í heim kornungur, nokkru áður en seinni heimsstyrjöldin braust út. Í umróti stríðsins var hann svikinn í hendur Gestapo í Noregi, fangelsaður og síðar sendur til Sachsenhausen-fangabúðanna skammt frá Berlín.

Leifur þraukaði til stríðsloka í þessum illræmdu útrýmingarbúðum nasista. Gegndarlaus þrældómur, grimmd, niðurlæging og þjáningar urðu hlutskipti hans þar, og við hryllilegar aðstæður dró hann fram lífið, komst til þroska – og lifði af. Eftir stríð höfðu fáir heima á Íslandi nokkurn skilning á því sem hann hafði gengið í gegnum en hann var illa farinn á líkama og sál eftir vítisvistina; sárin greru aldrei.

Leifur Muller lést sumarið 1988, í þann mund sem Garðar Sverrisson lauk við að rita söguna um fangavist hans fjörutíu árum fyrr, látlausan aðdraganda hennar og áhrifarík eftirmál. Bókin kom út um haustið og vakti gríðarlega athygli enda er upprifjun Leifs einlæg og sláandi, skrifuð af nærfærni og virðingu, og snertir djúpt hvern þann sem les.