Æ, heimurinn er svo stór, jólin eru svo stór, ævisögulegu skáldsögurnar eru svo stórar. Og hafið, það er líka stórt. En maður hagar seglum eftir vindi. Nú skellur myrkrið á og þá er ekki hægt að biðja til guða hinna stóru hluta, þegar sólin sést hvergi og samfélagið situr heima í öreindum sínum. Þá má leggja traust sitt á minni hluti, til dæmis kökugaffal, ullarvettling, krossgátu eða tvöfalda sérhljóða almennt. Þegar jólin loksins ryðjast yfir er gott að geta gengið að þessum hlutum vísum, og þegar maður er á gangi er gott að hafa litla bók í vasanum til að lesa þegar maður sest niður.