Um Íslensku barnabókaverðlaunin

Stofnað var til Íslensku barnabókaverðlaunanna 1985 í tilefni af sjötugsafmæli rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar og voru verðlaunin veitt í fyrsta sinn vorið 1986. Að verðlaununum standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Barnavinafélagið Sumargjöf, IBBY á Íslandi og Forlagið. Fulltrúar þessara aðila skipa dómnefnd, auk tveggja nemenda úr 8. bekk.

Skilafrestur
Einu sinni á ári er auglýst er eftir handritum til að keppa um Íslensku barnabókaverðlaunin. Skilafrestur er í febrúar en nánari upplýsingar hverju sinni má finna hér á heimasíðu Forlagsins. Póststimpill gildir sem skiladagur. Höfundar eru beðnir að senda inn fjögur eintök af handriti sínu. Handrit skal merkja með dulnefni en rétt nafn höfundar ásamt símanúmeri eða netfangi skal fylgja með í lokuðu umslagi. Handrit skal sent til Forlagsins merkt:

Verðlaunasjóður Íslenskra barnabóka
Forlagið
Bræðraborgarstíg 7
101 Reykjavík.

Frágangur
Handritið skal vera að lágmarki 50 ritvinnslusíður að lengd, miðað við til dæmis grunnstillingu í Word. Ekki er gert ráð fyrir því að verðlaunasagan verði myndskreytt. Frágangur á handriti skal vera snyrtilegur þannig að þægilegt sé að lesa það, til dæmis í gatamöppu, en ekki er nauðsynlegt að binda það inn.

Úrslit
Þegar dómnefnd hefur komist að niðurstöðu um verðlaunahandrit ársins er haft samband við höfund þess. Þetta er venjulega í byrjun maí. Umslög með öðrum dulnefnum eru ekki opnuð og því ekki hægt að láta aðra höfunda vita um úrslitin. Þegar niðurstaða liggur fyrir býðst höfundum að sækja handrit sín á skrifstofu Forlagsins en að sex mánuðum liðnum er öllum ósóttum handritum fargað. Dómnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum handritum. Verðlaunahandritið kemur út að hausti og nafn verðlaunahafans kunngjört um leið. Verðlaunafé er 500.000 kr. auk höfundarlauna.

Nánari upplýsingar um verðlaunin veitir Æsa Guðrún Bjarnadóttir ritstjóri.

Íslensku barnabókaverðlaunin hafa verið veitt fyrir eftirtaldar bækur:

Emil og Skundi eftir Guðmund Ólafsson, 1986
Franskbrauð með sultu eftir Kristínu Steinsdóttur, 1987
Fugl í búri eftir Kristínu Loftsdóttur, 1988
Álagadalurinn eftir Heiði Baldursdóttur, 1989
Í pokahorninu eftir Karl Helgason, 1990
Gegnum þyrnigerðið eftir Iðunni Steinsdóttur, 1991
Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson, 1992
Brak og brestir eftir Elías Snæland Jónsson, 1993
Röndóttir spóar eftir Guðrúnu H. Eiríksdóttur, 1994
Eplasneplar eftir Þóreyju Friðbjörnsdóttur, 1995
Grillaðir bananar eftir Ingibjörgu Möller og Fríðu Sigurðardóttur, 1996
Margt býr í myrkrinu eftir Þorgrím Þráinsson, 1997
Heljarstökk afturábak eftir Guðmund Ólafsson, 1998
Leikur á borði eftir Ragnheiði Gestsdóttur, 2000
Sjáumst aftur … eftir Gunnhildi Hrólfsdóttur, 2001
Ferðin til Samiraka eftir Hörpu Jónsdóttur, 2002
Biobörn eftir Yrsu Sigurðardóttur, 2003
Leyndardómur ljónsins eftir Brynhildi Þórarinsdóttur, 2004
Háski og hundakjöt eftir Héðin Svarfdal Björnsson, 2006
Loforðið eftir Hrund Þórsdóttur, 2007
Steindýrin eftir Gunnar Theodór Eggertsson, 2008
Þvílík vika eftir Guðmund Brynjólfsson, 2009
Ertu Guð, afi? eftir Þorgrím Þráinsson, 2010
Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, 2011
Hrafnsauga eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, 2012
Ótrúleg ævintýri afa eftir Guðna Líndal Benediktsson, 2014
Skuggasaga – Arftakinn eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur, 2015
Skóladraugurinn eftir Ingu Mekkín Beck, 2016
Er ekki allt í lagi með þig? eftir Elísu Jóhannsdóttur, 2017

Stormsker – Fólkið sem fangaði vindinn eftir Birki Blæ Ingólfsson, 2018

Í þrjú skipti var auglýst sérstaklega eftir myndskreyttum handritum og urðu þessi þá hlutskörpust:
Veislan í barnavagninum eftir Herdísi Egilsdóttur og Erlu Sigurðardóttur, 1995
Risinn þjófótti og skyrfjallið eftir Sigrúnu Helgadóttur og Guðrúnu Hannesdóttur, 1996
Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar eftir Margréti Tryggvadóttur og Halldór Baldursson, 2006

Forlagið og Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka auglýsa eftir handriti að skáldsögu fyrir börn og unglinga til að keppa um Íslensku barnabókaverðlaunin 2019. Handritið skal vera að lágmarki 50 ritvinnslusíður að lengd, miðað við til dæmis grunnstillingu í Word. Skilafrestur er til og með 8. febrúar 2019. Handritið á að merkja með dulnefni en rétt nafn höfundar fylgi með í lokuðu umslagi.

Handritum skal skila í fjórum eintökum til:

Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka
Forlagið
Bræðraborgarstíg 7
101 Reykjavík

Að Íslensku barnabókaverðlaunum standa auk Forlagsins fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar rithöfundar, Barnavinafélagið Sumargjöf og IBBY á Íslandi. Dómnefnd skipuð fulltrúum þessara aðila, auk tveggja nemenda úr 8. bekk, velur sigurhandritið sem kemur út hjá Forlaginu haustið 2019. Verðlaunin nema 500.000 krónum auk höfundarlauna.

Þegar dómnefnd hefur komist að niðurstöðu er umslag með réttu nafni höfundarins opnað og hann látinn vita. Tilkynning um að niðurstaða liggi fyrir birtist þá á heimasíðu Forlagsins og aðrir höfundar mega sækja handrit sín innan hálfs árs, að þeim tíma liðnum er öllum handritum fargað.

Íslensku barnabókaverðlaunin hafa verið veitt í rúmlega 30 ár og undanfarin ár hefur metfjöldi handrita borist. Það ber vott um mikla grósku í skrifum fyrir börn og unglinga sem allt bókafólk hlýtur að fagna.

Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka veitir Íslensku barnabókaverðlaunin árlega að lokinni samkeppni þar sem höfundar skila handritum undir dulnefni. Eftirfarandi er verklag og vinnureglur:

Stjórn Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka:

Fulltrúi frá Forlaginu – formaður dómnefndar (Æsa Guðrún Bjarnadóttir, 2017)

Fulltrúi frá Sumargjöf (Kristín Hagalín Ólafsdóttir, 2017)

Fulltrúi frá fjölskyldu Ármanns Kr. Einarssonar (Kristín Ármannsdóttir, 2017)

Þórhildur Garðarsdóttir, fjármálastjóri Forlagsins, heldur utan um fjármál Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka og tekur saman tölur fyrir árlegan aðalfund.

Vinnureglur Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka – með hliðsjón af samkeppnisreglum Rithöfundasambands Íslands.

  1. Auglýsingar og kynningar

Í auglýsingum og kynningum á handritasamkeppni Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka skal skýrt tekið fram að um handrit að skáldsögu fyrir börn sé að ræða, hvernig og hvenær handritum skal komið til skila og hvaða aðilar skipa dómnefnd. Þar skal einnig kveðið á um verðlaunafé og titil verðlaunanna: Íslensku barnabókaverðlaunin. Ef áskilinn er réttur til að veita engin verðlaun skal það tekið sérstaklega fram. Einnig skal auglýsa það sérstaklega hvernig hægt verði að nálgast innsend keppnisgögn eftir að dómnefnd hefur lokið störfum. Forgangsréttur til útgáfu eða birtingar verðlaunaverka skal einnig tilgreindur.

  1. Meðferð keppnisgagna

Öll meðferð keppnisgagna sé hin vandaðasta og umslög með upplýsingum um nöfn keppenda tryggilega geymd hjá formanni dómnefndar. Aðeins skulu opnuð þau umslög sem tengjast vinningshöfum, hinum skilað með handritum eftir að tilkynnt hefur verið að sigurhandrit hafi verið valið. Ósóttum handritum er fargað eftir afhendingu verðlaunanna.

  1. Dómnefndir

Fjögurra manna dómnefnd sér um að velja handritið sem er verðlaunað: einn fulltrúi frá Forlaginu; einn fulltrúi frá Barnavinafélaginu Sumargjöf; einn frá fjölskyldu Ármanns Kr. Einarssonar og einn frá IBBY á Íslandi. Að auki lesa tveir krakkar úr áttunda bekk lokaúrtak sem dómnefnd kemur sér saman um, 3-5 handrit af þeim sem eru send inn í keppnina. Lesandi frá IBBY fær greitt fyrir sína þátttöku 140 þúsund krónur og krakkarnir 20 þúsund krónur hvort.

  1. Verðlaunafé, úrslit og afhending verðlauna.

Verðlaunaféð er 500 þúsund krónur, höfundagreiðslur svo til viðbótar. Dómnefnd skal í samráði við þá sem að keppninni standa sjá til þess að kynning á úrslitum og verðlaunaveiting sé með viðeigandi hætti.

  1. Samningar um útgáfu eða birtingu.

Formaður dómnefndar fylgi því jafnan eftir að gerðir séu samningar um útgáfu eða birtingu verðlaunaverka eigi síðar en sex vikum eftir að úrslit eru kunngerð höfundi.

Íslensku barnabókaverðlaunin