TMM 4. hefti 2018

Nýtt hefti Tímarits Máls og menningar komið út

Nú er fjórða hefti ársins af Tímariti Máls og menningar komið til áskrifenda sinna og fer einnig í allar helstu bókabúðir í dag, þriðjudaginn 27. nóvember. Af því tilefni birtum við hér brot úr stóru viðtali í ritinu sem Halla Þórlaug Óskarsdóttir tekur við Eirík Örn Norðdahl rithöfund um nýjustu bók hans, sem heitir eftir aðalpersónunni Hans Blær.

 

HÞÓ: Til hamingju með bókina, Eiríkur. Það má vera að hún verði gagnrýnd, kannski harðlega, af þeim sem finnst vegið að trans samfélaginu, en ég er hins vegar ekki sammála því að hér sé verið að sverta mynd trans eða intersex. Hér hefurðu búið til einstakling en ekki stereótýpu. Ég held að það sé einmitt svo ótrúlega mikilvægt þegar kemur að því að skrifa um aðra reynslu en manns eigin. Það hefði verið svo auðvelt að búa annaðhvort til fórnarlamb eða algóða manneskju sem tekur aldrei eigingjarnar ákvarðanir og berst hetjulega fyrir málstaðnum. Hans Blær er ekki í forsvari fyrir trans eða intersex. Hán* er skáldsagnapersóna og sannarlega marglaga sem slík.
EÖN: Takk fyrir það. Ég vona að þeir sem reiðist yfir hugmyndinni um bókina gefi sér tíma til að lesa hana. Harðasta gagnrýnin í vor kom frá fólki sem hafði ekki séð leiksýninguna – og raunar áður en hún var einu sinni frumsýnd. Sem er auðvitað í anda verksins, en samt. Ég skil að hugmyndin stuði en vona að fólk treysti mér, ég var allavega að reyna að gera heiðarlegt listaverk – ég er ekki bara að trolla! Ég óttast samt stundum að tónninn sé sleginn – krafturinn í ákveðnum ásakandi fingrum er mikill og fólki oft furðu mikilvægt að niðursjóða listaverk í einhver einföld sándbæt, með eða á móti.

Það er samt ekki hægt að neita því að spurningin vaknar, hún gerði það í það minnsta hjá mér, um hver hefur réttinn til að tala. Ég gerði eiginlega strax ráð fyrir að það væri hluti af pælingunni. Þú talar um þetta á nokkrum stöðum í bókinni, til dæmis þegar Hans Blær, sem þá hét Ilmur, kemur út sem intersex í útvarpinu og gerir þá alla kjaftstopp. Hán hefur allt í einu öðlast nýjan rétt til þess að tala. Hver er þín afstaða til þessa með tilliti til þessarar bókar?
Einn af síðri fylgifiskum þess sem er kallað ídentítetspólitík er ákveðin tilhneiging til þess að líta fyrst til þess hver segir eitthvað og láta það síðan vega furðu þungt þegar lagt er mat á það sem viðkomandi segir. Við stillum tortryggninemana og viðkvæmni þeirra eftir þessu. Þetta er slæm pólitík af ótal ástæðum. Meðal annars vegna þess að það gefur kapítalinu færi á að hvítþvo sjálft sig með líberalískum ráðningarferlum og gerir hinum ríku og frægu kleift að vera í kastljósinu líka þegar það kemur að því að vera kúgaður og undirokaður. En líka vegna þess að þetta getur hæglega snúist í höndunum á þeim sem stunda slíka pólitík einsog verður ljóst í kringum fólk einsog Milo Yiannopoulus, sem er samkynhneigður fasisti, giftur svörtum manni, Blaire White, sem er trumpísk transkona, Kent Ekeroth sem er Svíþjóðardemókrati af gyðingaættum og svo framvegis og svo framvegis.

Ég á ekki við að það skipti ekki máli hver segir hlutina og frá hvaða sjónarhóli – það litar bókina Uppvöxt Litla-Trés að Forrest Carter, höfundur hennar, hafi verið talsmaður Ku Klux Klan – en það er hætt við að maður missi af mörgu, næstum öllu, ef maður lætur slíkan lestur ramma inn heilu listaverkin.

Reynsla annarrar manneskju í öðrum aðstæðum getur aldrei orðið manni fullkomlega skiljanleg og á sama tíma er það miðlun slíkrar reynslu sem er hornsteinn allra frásagnabókmennta. Empatían, samlíðanin. Rithöfundar reyna að búa til sögupersónur sem eru einstakar og ef vel tekst til öðlast þær einhvers konar sjálfstætt líf. Það líf litar svo oft mann sjálfan og manns eigið líf – mér finnst einsog ég hafi í senn fyrir löngu misst stjórn á Hans Blævi og orðið hán, eða hluti hánar, hán hluti af mér.

Rithöfundar hafa hins vegar ekki „rétt“ til þess að segja eitt eða neitt eða mæla fyrir hönd eins eða neins – hvorki í krafti listar sinnar, frekju sinnar né djúpstæðra móralskra yfirburða. Ég hef engan „rétt“ til þess að segja „sögu transfólks“ frekar en ég hef rétt til þess að skrifa sögu helfararinnar, um barnadauða eða heim flóttamanna. Ég geri það bara. Það að skrifa bækur er alltaf að einhverju marki siðlaus gjörningur. Og sennilega líka það fallegasta sem maður getur gert heiminum.

[…]

Hvernig varð Hans Blær til?
Ég hef alltaf verið heillaður af mótsagnakenndum persónuleikum, kannski af því að ég þekki svo mikið af þannig fólki – það er ekkert raunverulegra en manneskja sem meikar ekki sens við fyrstu sýn. Hans Blær varð fyrst til sem persóna í lélegum reyfara sem ég skrifaði og er vonandi búinn að eyða öllum eintökum af. Það var í september 2013, í residensíu í Jonsered, rétt utan við Gautaborg. Bókin fór í ruslið en persónan sat eftir og tók alls konar breytingum. Ég rifjaði svo upp kynnin við hána þegar ég hafði lokið við Heimsku, vorið 2015. Eitt af því fyrsta sem ég gerði var að búa til lista yfir fyrirmyndir – sem ég á einhvers staðar hérna, hann varð á endanum rosalega langur. Á honum er reitt fólk og sárt fólk og narsissistar úr öllum stéttum og alls staðar að úr heiminum. Út frá þessum lista sankaði ég svo að mér lesefni – í hillunni er allt frá ævisögu Axl Rose og Dangerous eftir áðurnefndan Milo Yiannopoulus yfir í Myru Breckinridge, ljóðasöfn transfólks og fræðibækur um troll, kynlíf, nauðganir, trans og ídentítet. Ég sanka yfirleitt að mér bara öllu sem ég finn sem tengist eitthvað því sem ég er að skrifa – og lifi síðan við frekar strangt mataræði í bókmenntum, að minnsta kosti á intensífustu köflunum, og les þá ekkert sem kemur málinu ekki við. Þetta þættu sennilega ekki góð vinnubrögð fyrir fræðimann, svona manískt grúsk hingað og þangað, en þau henta skáldi ágætlega.

Við upplifum Hans Blævi ekki sem fórnarlamb, þrátt fyrir að vera á skjön við normið. Þannig getur lesandinn reiðst hánum, fundist hán illa innrætt og vont. Og á sama hátt, með því að taka valdið til sín og leika aldrei fórnarlambið, er hán orðið að skotmarki. Hans Blær er ekki öruggt, þótt hán sé kjaftfort, og hán er jafnvel svolítið hrætt þegar sagan hefst.
Mér finnst hán ekki vera illt, þrátt fyrir allt. Hán er sannarlega leitandi og kannski má segja að hán sé djarft og óhrætt – en aftur á móti hlýtur hegðun hánar að byggjast á því að finnast hán þurfa að vera sterkt, eldfimt og ósigrandi. Skothelt. Og ef þér finnst þú þurfa að vera ósigrandi, þá hlýtur einhver ótti að bærast innra með þér. Eða hvað?

Hvernig hugsar þú um þetta með að taka valdið og vera skotmark? Erum við alltaf að troða einhverjum um tær með því að taka pláss?
Hans Blær er ekki illt en hán gerir illa hluti. Uppásnúningurinn um heimskuna í Forrest Gump – „stupid is as stupid does“ – á upprunalega við um illskuna. Illskan er að gera illa hluti og maður skilgreinir sjálfan sig með gjörðum sínum. Hins vegar er ekkert okkar neitt eitt og við eigum ekki skilið að vera smættuð niður í verstu augnablik lífs okkar, það versta sem við höfum gert, frekar en við eigum skilið að láta einsog bestu hliðar okkar séu þær einu sem máli skipta. Hans Blær er illt þegar hán gerir illt og gott þegar hán gerir gott – og stundum meinar hán vel en gerir illt og öfugt. Við lifum á þannig tímum – í alls kyns uppgjörum – að fólki finnst þægilegast að hafa skýrar markalínur. Þeirra getur verið þörf í ákveðnum tilgangi en þá er samt gott að halda því til haga að þær útskýra ekki nema eitt örlítið horn heimsins – og skilgreini maður einhvern sem illan er hætt við að sá einstaklingur fari sjálfur að álíta sig illmenni. Og hvað gera illmenni – þau fremja illvirki.

Hans Blær

Hans Blær fæðist á skjön – minna en hán heldur, en samt á skjön – við væntingar heimsins og er þar með fengið tiltekið hlutverk í heiminum sem já, óttast hið frábrugðna. Hán er sérstakt en má það ekki – hán á að þegja um „ástand“ sitt. Hánum stendur bara til boða að lifa eftir borgaralegum reglum eða lúta reglum jaðarhóps sem hán veit ekki einu sinni hvernig lítur út. Í öllu þessu hefur enginn tekið tillit til hánar eða þess hver hán vill vera og hánum finnst þar af leiðandi ekki að hán þurfi að taka tillit til neins annars. Það er lykilatriði í persónuleika hánar að hán vill alls ekki tilheyra – hvorki rýmunum í miðjunni né þeim á jöðrunum – einmitt vegna þess að allir krefjast þess að hán geri það. Mamma hánar vill að hán þegi og sé normal og trans samfélagið vill að hán sé í versta falli frjálslyndur jafnaðarmaður – sem hán finnst bara vera önnur tegund af normal. Vandamálið við að tilheyra liggur beinlínis í orðinu – maður tilheyrir, verður eign einhvers kúltúrs sem svo ætlast til þess að maður hagi sér á tiltekinn máta, klæði sig á tiltekinn máta, hlusti á tiltekna tónlist, borði tiltekinn mat o.s.frv. Ef maður hagar sér innan rammans – brýtur ekki nema rétt svo passlega margar reglur til að maður þó hafi snert af persónuleika – þá fær maður ást og virðingu. Annars fær maður bara að naga þröskuldinn.

Og jú, hán er óttaslegið og hán veður eldinn – sennilega óttast hán ekkert jafn mikið og að gera eitthvað, viljandi eða óviljandi, af hugleysi. Að hugleysið verði að drifkrafti í lífi hánar. Og þess vegna þarf hán stöðugt að viðhalda skelfingunni – eða hinum skelfilegu aðstæðum – því án skelfingarinnar ge

tur maður ekki verið viss um að maður sé ennþá hugrakkur. Maður er kannski orðinn deigur, orðinn huglaus, orðinn smáborgari. Og ef Hans Blær er ekki hugrakkt lengur þá verður hán einfaldlega fláð lifandi af óvildarmönnum sínum.

Samfélagsumræður okkar tíma eiga sér að miklu leyti stað á Internetinu, þar sem fólk er oftar en ekki yfirlýsingagjarnt. Leikar æsast á methraða, setningar eru teknar úr samhengi og nær ómögulegt að skipta um skoðun eða taka orð sín til baka. Virðing er látin lönd og leið og einfaldast virðist að sleppa því að taka þátt.

 

 

* Hans Blær beygir fornafnið hán ekki með hefðbundnum hætti heldur hán, um hána, frá hánum, til hánar. Það verður virt í þessu viðtali.

Opnunartímar á Fiskislóð

Virkir dagar 10-18
Laugardagar 11-17
Sunnudagar 12-16

 

Sími í verslun á Fiskislóð 39: 575 5636

Sími á skrifstofu á Bræðraborgarstíg: 575 5600

Fylgstu með á facebook!

2021 © Forlagið | Bræðraborgarstíg 7, 101 Reykjavík | Sími 575 5600 | forlagid@forlagid.is | www.forlagid.is

INNskráning

Nýskráning

nýskráning