Lilja Sigurðardóttir hlaut Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, í ár fyrir bók sína Svik en þetta er annað árið í röð sem Lilja hlýtur verðlaunin. Bókin verður þar með framlag Íslands til Glerlykilsins sem besta norræna glæpasagan.

Lilja var að vonum sátt með verðlaunin

Hið íslenska glæpafélag stendur að verðlaununum. Dómnefnd skipuðu þau Vera Knútsdóttir formaður, Páll Kristinn Pálsson og Kristján Atli Ragnarsson. Í áliti þeirra sagði meðal annars:

„Sagan er hörkugóður pólitískur spennutryllir og ferskur andblær í íslenska glæpasagnahefð sem hefur ekki oft tekið á spillingu í íslenskum stjórnmálum. Helsta vægi sögunnar er margslungin fléttan sem nýtur sín í öruggum höndum höfundar. Þá prýðir söguna ríkulegt persónugallerí sem segja má að sé stærsti kostur Lilju, en hún er sérstaklega góð í að skapa sannfærandi persónur sem auðvelt er að hrífast með. Svik sver sig í ætt við skandinavísk ættmenni sín á sviði glæpabókmennta, er í senn vel skrifuð og æsispennandi.“

Innilega til hamingju, kæra Lilja!

Lilja ásamt Sigríði Rögnvaldsdóttur, ritstjóra, og Hólmfríði Úu Matthíasdóttur, útgefanda.

Þakkaræðu Lilju má lesa í heild sinni hér:

Takk fyrir Blóðdropann.
Það er ekki oft sem gefst tækifæri til að vitna í hina frábæru Britney Spears en nú er það tilvalið: ,,Oops! I did it again!“
Þetta er heiður að feta í fótspor þeirra sem áður hafa hlotið þessi verðlaun tvisvar sinnum: Arnaldar og Yrsu og nú vantar mig bara ein í viðbót til að skáka Stefáni Mána sem á heila hillu af Blóðdropum.
Og sérstaklega er ánægjulegt að taka við þessum verðlaunum á afmælisdegi Birgittu H Halldórsdóttur, frumkvöðuls í íslenskri glæpasagnagerð.
Ég þakka Hinu Íslenska Glæpafélagi fyrir að standa fyrir þessum verðlaunum sem skipta höfunda miklu máli.
Það að glæpasögur fái þá alúð og athygli sem felst í því að dómnefnd lesi og rýni í allar útgefnar íslenskar glæpasögur á hverju ári er ótrúlega mikilvægt og nauðsynlegur stuðningur við þessa íslensku sprotabókmenntagrein.
Það ríkja ennþá fordómar gagnvart glæpasögum sem oft endurspegla vankunnáttu á því hvað glæpasaga nákvæmlega er og hvaða upplifun hún á að skapa lesandanum og það er stundum ergilegt fyrir höfundana sem eru að hamast við að byggja upp glæpasöguna sem kraftmikið „genre“ eða bókmenntagrein á Íslandi.
Þess vegna er u þessi verðlaun mikilvæg, bæði hér á Íslandi og erlendis, þar sem verðlaunabókin er framlag Íslands til Glerlykilssins, norrænu glæpasöguverðlaunanna og við ættum öll að hjálpast að við að gera sem mest úr Blóðdropanum.
Ég hef verið svo lánsöm að geta ferðast mikið í bókabransanum undanfarið og séð móttökurnar og orðsporið sem íslenskar bókmenntir eru að fá í útlöndum. Og ég verð alltaf mjög stolt því að íslenskar bækur eru vinsælar og einkum og sér í lagi glæpasögurnar.
Ég gerði mér nefnilega ekki grein fyrir því fyrr en nýlega að íslenskar glæpasögur eru raunverulega í heimsklassa og gefa ekkert eftir því sem skrifað er í öðrum löndum.  Og þegar litið er til mannfjölda þá á þessi litla þjóð skringilega marga og góða glæpasöguhöfunda. Og að þessu þarf að hlúa og styðja nýja höfunda sem eru að feta sig fram á ritvöllinn með glæpasögur. Og þar er Blóðdropinn ekki lítil hvatning eða markmið til að stefna að.
Ég er ótrúlega stolt af því að Svik sé að mati dómnefndar besta glæpasaga síðasta árs því að af mörgum góðum var að taka. Dómnefndin hefur svo sannarlega verið í vanda því uppskera síðasta árs var mjög góð og ég á alltaf erfitt með að gera upp við sjálfa mig hvaða bækur mér þykja bestar því þær eru svo ólíkar, circa einn til tveir höfundar í hverju „subgenre“ glæpasögunnar og svo eru þau öll kærir vinir.
Og það er svo sérstakt með glæpasöguhöfunda að þau standa saman eins og fótboltalið, styðja og hvetja hvert annað og hjálpast að. Og það er eitt af því sem hefur verið mér dýrmætast í mínum ferli: að eiga þau öll að og njóta félagsskapar þeirra, stuðnings og hvatningar og geta lært af þeim.
Að öllum ólöstuðum þá langar mig að nefna Yrsu Sigurðardóttur sérstaklega sem hefur verið svo fallega örlát á sjálfa sig og mín helsta fyrirmynd og stuðningur í glæpabransanum.
Ég vil þakka Forlaginu fyrir sérlega gott samstarf. Umfram aðra á þó Sigríður Rögnvaldsdóttir ritstjóri minn þakkir skildar því það munaði mjög litlu að handritið að Svikum lenti í ruslinu.
Þegar ég byrjaði á bókinni var ég dauðspennt fyrir henni og viss um að þetta yrði mjög skemmtileg saga, en þegar ég kláraði var ég orðin svo óánægð með hana að ég var að hugsa um að henda handritinu.
Þá kom skörp sýn Sigríðar sterk inn og hún benti mér á að ég þyrfti að tengjast aðalpersónunni betur, þykja vænna um hana og þá myndi þetta smella. Og til að þykja vænna um persónuna þá notaði ég það sígilda glæphöfundatrix að hella yfir hana meiri vandræðum og erfiðleikum og það var rétt hjá Sigríði að það small. Svo að takk kæra Sigríður, áfrallastreituröskun Úrsúlu er þér að þakka.
Takk kæra Glæpafélag og dómnefnd fyrir Blóðdropann. Hann verður mér hvatning til að halda áfram að gera mitt besta til að skrifa skemmtilegar og spennandi glæpasögur og skemmta lesendunum sem eru auðvitað þeir sem þetta snýst allt um.
 
Lilja Sigurðardóttir