Vilborg Dagbjartsdóttir

Vilborg Dagbjartsdóttir

Vilborg Dagbjartsdóttir fæddist á Hjalla á Vestdalseyri þann 18. júlí árið 1930. Hún nam leiklist um skeið en lauk síðar kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. Þá stundaði hún nám í bókasafnsfræði við Háskóla Íslands. Vilborg starfaði sem kennari við Austurbæjarskólann um langt árabil, meðfram ritstörfum, en drjúgur hluti höfundaverks hennar eru sögur handa börnum, þýddar og frumsamdar.

Vilborg hefur verið mikilvirkur þýðandi og starfað ötullega að málefnum barna. Hún var einn frumkvöðla að stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og sat lengi í stjórn Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna. Hún hefur átt sæti í stjórn Stéttarfélags íslenskra barnakennara, Rithöfundafélags Íslands og Rithöfundasambands Íslands.

Fyrsta ljóðabók Vilborgar var Laufið á trjánum sem kom út árið 1960 og var hún þá ein af fáum konum sem ortu atómljóð. Ljóð Vilborgar hafa birst í erlendum safnritum og tímaritum á fjölda tungumála. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1992 fyrir ljóðabókina Klukkan í turninum.