Vigdís Grímsdóttir

Vigdís Grímsdóttir

Vigdís Grímsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1953. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, BA prófi í íslensku og bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands 1978 og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands 1982. Hún stundaði kandidatsnám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands 1984–1985. Vigdís starfaði sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari í Reykjavík og Hafnarfirði til 1990 en hefur síðan nær eingöngu fengist við ritstörf. Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Tíu myndir úr lífi þínu kom út árið 1983 og síðan hefur hún sent frá sér skáldsögur (þar á meðal barnabók), ljóðabækur, smásögur og ævisögur.

Vigdís hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1989 fyrir Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón, 1996 fyrir Z og 2007 fyrir Söguna um Bíbí Ólafsdóttur. Verðlaunin hlaut hún árið 1994 fyrir Grandaveg 7. Leikgerðir Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón og Grandavegur 7 hafa verið á fjölum Þjóðleikhússins og Hilmar Oddson gerði minnisstæða kvikmynd eftir sögunni Kaldaljós.