Þórunn Jarla Valdimarsdóttir

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir (Þórunn Erlu og Valdimarsdóttir) er fædd 25. ágúst 1954. Hún lærði sagnfræði í Lundi í Svíþjóð 1973–1974 og sögu og myndlist við Instituto Allende í Mexíkó árið 1977–1978. Þórunn lauk cand. mag-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1983 og hefur síðan fengist við ritstörf. Eftir hana liggja á þriðja tug bóka – skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og sagnfræðirit, auk fjölda greina og þátta fyrir útvarp og sjónvarp. Barnævisöguna Sól í Norðurmýri og nóvelluna Dag kvennanna skrifaði Þórunn í félagi við Megas.

Þórunn var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2000 fyrir Stúlku með fingur sem einnig hlaut Menningarverðlaun DV. Þá hafa bækur hennar, Snorri á Húsafelli. Saga frá 18. öld, Kalt er annars blóð, Mörg eru ljónsins eyru og Upp á Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar allar verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sú síðasttalda var auk þess tilnefnd til verðlauna Hagþenkis og fékk viðurkenningu Félags bókasafns- og upplýsingafræða fyrir bestu frumsömdu fræðibók ársins. Þá hlaut Þórunn Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2013 fyrir Stúlku með maga.