Þorsteinn frá Hamri

Þorsteinn frá Hamri

Þorsteinn (Jónsson) frá Hamri er fæddur 15. mars 1938 að Hamri í Þverárhlíð í Borgarfirði. Hann hefur fyrir löngu tryggt sér sess meðal fremstu ljóðskálda sem ort hafa á íslenska tungu. Allt frá því hann gaf út sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli árið 1958, aðeins tvítugur að aldri, hefur hann mótað og fágað ljóðstíl sinn, og oft er talið að honum hafi tekist sérlega vel að bræða saman hina gömlu ljóðahefð og stílbrögð nýrrar aldar, ljóðmál módernismans.

Þorsteinn hefur einnig skrifað skáldsögur og sagnaþætti og eftir hann liggja margar þýðingar. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi. Þorsteinn hefur margorft verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, seinast árið 2015 fyrir Skessukatla. Þá var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1995 fyrir Það talar í trjánum og 1999 fyrir Meðan þú vaktir. Þorsteinn fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2009.