Soffía Bjarnadóttir

Soffía Bjarnadóttir

Soffía Bjarnadóttir er fædd í Reykjavík 12. maí árið 1975. Hún stundaði nám í leikhúsfræði við Kaupmannahafnarháskóla á árunum 1998 til 2000 og lauk síðar því námi sem hluta af BA námi í alm. bókmenntafræði árið 2003 frá Háskóla Ísland. Árið 2011 lauk hún MA-prófi í bókmenntafræði með áherslu á samband skáldskapar og dauða og áhrif goðsagna í samtímaskáldskap og árið 2014 lauk hún MA-prófi í ritlist frá Háskóla Íslands. Soffía hefur alið tvö börn og starfaði um nokkurra ára skeið á Landsbókasafni Íslands, einnig sem læknaritari og sem bókmenntarýnir fyrir útvarp og aðra fjölmiðla. Síðast liðin ár hefur Soffía starfað við ritstörf sem og tekið að sér ýmis konar kennslu í sköpun og ritlist.

Segulskekkja er fyrsta skáldsaga Soffíu sem kom út árið 2014. Í kjölfarið hafa meðal annars komið út tvær ljóðabækur eftir hana, Beinhvít skurn árið 2015 og Ég er hér árið 2017. Einnig hefur hún tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum og eftir hana hafa birst greinar, hugleiðingar, prósar og ljóð í tímaritum og safnritum.

Skáldsagan Segulskekkja kom út á frönsku hjá Éditions Zulma árið 2016 og tók hún þátt í listahátíðinni Les Boréales í Frakklandi sama ár.