Heimili höfundanna

Snorri Hjartarson
Snorri Hjartarson
Snorri Hjartarson var fæddur í Borgarfirði árið 1906 og ólst þar upp. Hann stundaði nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði og síðan Menntaskólann í Reykjavík en hvarf frá námi þar vegna veikinda. Síðar hélt hann utan til myndlistarnáms, var fyrst í Kaupmannahöfn og síðar í Ósló þar sem hann bjó um nokkurra ára skeið. Heimkominn settist hann að í Reykjavík og bjó þar alla tíð síðan. Hann lést í árslok 1986. Fyrsta bók Snorra var skáldsaga sem hann skrifaði á norsku og kom út árið 1934, Høit flyver ravnen. Eftir að hann flutti aftur heim til Íslands sneri hann sér að ljóðlistinni og fyrsta ljóðabók hans, Kvæði, kom út árið lýðveldisárið 1944. Snorri sendi einungis frá sér þrjár aðrar ljóðabækur; Á Gnitaheiði árið 1952, Lauf og stjörnur 1966 og Hauströkkrið yfir mér 1979. Að auki komu áður óbirt ljóð út í heildarsafni ljóða hans að honum látnum; bókin heitir Kvæðasafn og var fyrst gefin út 1992. Snorri var lengst af bókavörður við Borgarbókasafnið í Reykjavík og yfirbókavörður þar um ríflega tuttugu ára skeið. Jafnframt þeim störfum og sinni eigin ljóðagerð sá hann um útgáfur nokkurra ljóðasafna og annarra bóka. Frumsamdar bækur hans fjórar komu út með margra ára millibili en þrátt fyrir að efnið sé ekki mikið að vöxtum þykir Snorri vera meðal allra listfengustu íslenskra skálda á 20. öld. Í ljóðagerð sinni sameinaði hann hefð og nýjungar, jafnt í formi ljóðanna sem hugmyndaheimi, og miðlaði persónulegri náttúrusýn í meitluðum og myndrænum ljóðum. Árið 1981 hlaut Snorri Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabókina Hauströkkrið yfir mér. Ljóð hans hafa verið þýdd á allmörg tungumál og komið út í safnritum og víðar; heilar ljóðabækur hans hafa verið gefnar út á norsku og sænsku.

Bækur eftir höfund

Snorri Hjartarson - Kvæðasafn
Snorri Hjartarson - kvæðasafn
2.590 kr.

INNskráning

Nýskráning

nýskráning