Sigurður Pálsson

Sigurður Pálsson

Sigurður Pálsson fæddist 30. júlí 1948 á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og stundaði frönskunám í Toulouse og París og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne. Hann hefur einnig lokið námi í kvikmyndasleikstjórn.

Sigurður hefur fengist við ýmis störf í gegnum tíðina. Hann hefur verið fréttaritari, leiðsögumaður, kennari og unnið við sjónvarp og kvikmyndir. Sigurður hefur þó einkum fengist við ritstörf og þýðingar um langt skeið. Hann var forseti Alliance Française um skeið og formaður Rithöfundasambands Íslands.

Sigurður var einn af Listaskáldunum vondu 1976. Fjölmargar ljóðabækur hafa birst á prenti eftir Sigurð, sú fyrsta kom út 1975 undir heitinu Ljóð vega salt. Ljóðabókin Ljóð námu völd var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993, Sigurður hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Minnisbók árið 2007 og hafði þá áður verið tilnefndur fyrir ljóðabækurnar Ljóðlínuskip (1995) og Ljóðtímaleit (2001). Sigurður hefur einnig ritað skáldsögur og fengist við leikritasmíð, skrifað sjónvarps- og útvarpshandrit og óperutexta. Ljóðabækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg erlend tungumál, m.a. búlgörsku og kínversku. Árið 1994 kom út tvítyngd útgáfa ljóða hans hjá Editions de la Différence í París í þýðingu Régis Boyer, deildarforseta Skandínavísku deildar Sorbonne-háskóla. Stórt úrval ljóða Sigurðar í enskri þýðingu árið 2014 undir titlinum Inside Voices, Outside Light.

Sigurður var valinn borgarlistamaður Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1987-1990, var veittur riddarakross Orðu lista og bókmennta (Chevalier de l’Ordre des Arts et des Lettres) af menningarmálaráðherra Frakklands árið 1990, og Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi Frönsku heiðursorðunnar (Chevalier l’Ordre National du Mérite) árið 2007. Hann hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2016.

Á nýársdag 2017 veitti forseti Íslands Sigurði Fálkaorðuna fyrir framlag til íslenskra bókmennta og menningar. Vorið 2017 veittu Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands Sigurði Maístjörnuna fyrir ljóðabókina Ljóð muna rödd en hún hefur nú verið þýdd á dönsku og norsku og útgáfa í þeim löndum væntanleg. Úrval ljóða hans, Mit hus, kom út hjá danska bókaforlaginu Vandkunsten 2017 og hefur það að geyma ljóð úr 15 bókum Sigurðar sem komu út á árunum 1975 til 2012 í þýðingu Erik Skyum Nielsen. Sigurður Pálsson lést árið 2017.