Heimili höfundanna

Kristján Eldjárn
Kristján Eldjárn
Kristján (Þórarinsson) Eldjárn var fæddur árið 1916 á Tjörn í Svarfaðardal og ólst þar upp. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og las síðan fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla og íslensk fræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 1957. Hann stundaði kennslu og var safnvörður við Þjóðminjasafn Íslands en árið 1947 varð hann þjóðminjavörður og gegndi því starfi allt þar til hann var kjörinn forseti Íslands árið 1968. Hann lét af embætti forseta árið 1980, var árið eftir skipaður prófessor við Háskóla Íslands en lést árið 1982. Kristján var hvort tveggja í senn, ötull vísindamaður og vinsæll alþýðufræðari. Hann varð ekki síst þekktur meðal almennings fyrir sjónvarpsþætti um íslenska menningarsögu, muni og minjar, sem hann stýrði á fyrstu árum íslensks sjónvarps og þau tólf ár sem hann sat á Bessastöðum í embætti forseta lýðveldisins naut hann mikils trausts og almennrar virðingar landsmanna. Auk embætta sinna og opinberra starfa gegndi Kristján fjölda annarra trúnaðarstarfa, sat í nefndum og stjórnum félaga og stofnana. Hann var gerður að heiðursdoktor við ýmsa háskóla og heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands árið 1977. Kristján stóð fyrir mörgum fornleifarannsóknum á Íslandi, á Grænlandi, Gotlandi og Nýfundnalandi, og skrifaði fjölda fræðigreina um fornleifafræði, sem og efni ætlað almenningi. Einnig fékkst hann nokkuð við þýðingar í bundnu og óbundnu máli. Eftir hann liggur fjöldi bóka, einkum um fornleifafræði og uppgröft, ýmis söguleg efni, fornmuni og minjar. Doktorsritgerð Kristjáns, Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi, kom upphaflega út árið 1956 og er grundvallarrit um fornleifafræði hér á landi. Hún var seinast gefin út árið 2016, í tilefni þess að öld var liðin frá fæðingu höfundarins, og þá aukið við upplýsingum um kumlafundi síðustu áratuga. Adolf Friðriksson fornleifafræðingur sá um útgáfuna.

Bækur eftir höfund

imageedit_1_2332796491
Kuml og haugfé
8.590 kr.
Vínlandsdagbók
Vínlandsdagbók
4.865 kr.

INNskráning

Nýskráning

nýskráning