Kristín Ómarsdóttir

Kristín Ómarsdóttir

Kristín Ómarsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Hún varð stúdent frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 1981 og stundaði nám í íslensku, almennri bókmenntafræði og spænsku við Háskóla Íslands.

Kristín vakti fyrst athygli fyrir ritstörf þegar leikrit hennar, Draumar á hvolfi, vann til verðlauna í leikritasamkeppni Þjóðleikhússins 1985. Tveimur árum seinna kom út fyrsta ljóðabók hennar, Í húsinu okkar er þoka. Allar götur síðan hefur Kristín fengist jöfnum höndum við ljóðagerð, skáldsagna- og smásagnaskrif og leikritun, og hefur sent frá sér tugi fjölbreyttra verka. Þau einkennast gjarnan af sterku og ögrandi myndmáli, og sagna- og ljóðaheimur hennar er iðulega bæði heillandi og óhugnanlegur. Jafnframt ritstöfum hefur Kristín lagt stund á myndlist og tekið þátt í sýningum.

Kristín hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín. Hún fékk til að mynda Fjöruverðlaunin fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína (útg. 2008) og Grímuverðlaun sem leikskáld ársins 2005 fyrir leikritið Segðu mér allt. Þá hlaut hún ljóðaverðlaunin Maístjörnuna 2017 fyrir ljóðabókina Kóngulær í sýningargluggum og sama bók var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sömu tilnefningu hafði Kristín áður fengið fyrir þrjár skáldsögur sínar, Millu (2012), Elskan mín ég dey (1997) og Dyrnar þröngu (1995). Kristín hefur tvisvar verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs; fyrir Elskan mín ég dey (útg. 1997) og Kóngulær í sýningargluggum (útg. 2017). Bækur hennar hafa komið út á nokkrum tungumálum og ljóð hennar birst í erlendum safnritum.