Kristín Helga Gunnarsdóttir

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Kristín Helga Gunnarsdóttir fæddist 24. nóvember 1963. Hún nam spænsku við háskólana í Reykjavík og Barcelona, og lauk prófi í fjölmiðlafræði við háskólann í Utah í Bandaríkjunum. Hún starfaði sem fararstjóri, flugfreyja og fréttamaður, fyrst á Bylgjunni og síðan á Stöð 2. Frá árinu 1998 hefur Kristín Helga alfarið sinnt ritstörfum. Auk barnabóka hefur hún gert þætti fyrir sjónvarp og skrifað greinar og pistla fyrir blöð og tímarit.

Fyrstu barnabækur Kristínar Helgu Gunnarsdóttur voru Elsku besta Binna mín (1997) og Bíttu á jaxlinn Binna mín (1998) sem slógu rækilega í gegn og komu Kristínu Helgu strax í hóp vinsælustu barnabókahöfunda landsins. Kristín Helga fékk Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir bókina Mói Hrekkjusvín vorið 2001 og var tilnefnd til sömu verðlauna fyrir bókina Milljón steinar og Hrollur í dalnum 1999. Fyrir bækurnar Í Mánaljósi og Strandanornir fékk Kristín Helga Bókaverðlaun barnanna, sem valin eru á bókasöfnum landsins af 6-12 ára börnum. Strandanornir aflaði höfundi sínum jafnframt Vorvinda, árlegrar viðurkenningar íslensku IBBY-samtakanna.

Kristín Helga er formaður Rithöfundasambands Íslands.