Jón Gnarr

Jón Gnarr

Jón Gnarr (2. janúar 1967) er rithöfundur, leikari og fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur. Hann var snemma ódæll og á unglingsárum sínum var hann þekktur undir nafninu Jónsi pönk.  Eftir grunnskólapróf frá Héraðsskólanum Núpi sótti Jón ýmsa framhaldsskóla, en staldraði þó stutt við á hverjum stað fyrir sig og lauk ekki stúdentsprófi.

Jón Gnarr starfaði á Kópavogshæli á árunum 1985-1988 og seinna sem næturvaktmaður á Kleppi en fluttist svo til Svíþjóðar árið 1990 og vann þá m.a. hjá  Volvo. Hann starfaði síðar sem leigubílsstjóri hjá Bæjarleiðum  þar til hann snéri sér að skriftum og leik í grínþáttum, fyrst í útvarpsþættinum Heimsenda á Rás 2.  Gríntvíeyki Jóns og Sigurjóns Kjartanssonar, Tvíhöfði, varð bæði geysivinsælt og umdeilt fyrir háð sitt og spé í bæði útvarpi og sjónvarp. Tvíhöfði hefur alls gefið út fimm geislaplötur sem allar eru orðnar safngripir.  Jón varð síðan hluti af einum vinsælasta grínhóp síðari ára, Fóstbræðrum, sem gerði 5 þáttaraðir fyrir Stöð 2 á árunum 1997-2000.  Eftir ýmsar tilraunir bæði í útvarpi og sjónvarpi sló Jón aftur í gegn í sjónvarpsþáttunum Næturvaktinni haustið 2007. Í kjölfarið fylgdu þættirnir Dagvaktin og Fangavaktin, og kvikmyndin Bjarnferðarson. Fyrir túlkun sína á Georg Bjarnfreðarsyni fékk Jón Edduverðlaun árið 2010 en alls hefur Jón fengið á annan tug Edduverðlauna á sínum ferli sem handritshöfundur, framleiðandi og leikari. Auk þessa alls hefur Jón líka fengist við auglýsingagerð, sviðsleik og uppistand. Jón var borgarstjóri Reykjavíkur fyrir hönd Besta flokksins á árunum 2010-2014.

Jón gaf út skáldsöguna Miðnætursólborgin árið 1989 og Plebbabókina árið 2002. Skálduð ævisaga Jóns, Indjáninn, kom síðan út árið 2006. Bókina byggir hann á æskuminningum sínum og vakti hún strax töluverða athygli bæði lesenda og gagnrýnenda fyrir einlæga, hreinskiptna en tregafulla nálgun höfundarins.  Árið 2012 kom síðan út sjálfstætt  framhald hennar, Sjóræninginn, en þar tekur Jón upp þráðinn og skrifar um líf sitt að loknum grunnskóla og fram á fullorðinsár. Indjáninn og Sjóræninginn hafa báðar verið þýddar á ensku og þýsku og hlotið góðar viðtökur beggja vegna Atlantshafsins. Jón gaf einnig út bók sína Gnarr: How I Became the Mayor of a Large City in Iceland and Changed the World árið 2014 hjá bandaríska forlaginu Melville House. Þriðja skáldævisaga Jóns, Útlaginn, kom út árið 2015.