Gunnar Theodór Eggertsson

Gunnar Theodór Eggertsson

Gunnar Theodór Eggertsson er fæddur árið 1982. Hann er einstaklega frjór og hugmyndaríkur höfundur og hafa þeir hæfileikar notið sín til hins ýtrasta í vinsælum barna- og ungmennabókum hans sem eru af ætt furðusagna. Skrif Gunnars eru undir sterkum áhrifum frá kvikmyndum, enda segir það sína sögu að hann er bæði með gráður í kvikmynda- og bókmenntafræði.

Gunnar hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2008 fyrir fyrstu barnabók sína, Steindýrin, og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2015 fyrir Drauga-Dísu. Komið hafa út framhaldsbækur af báðum þessum sögum.

Dýr leika stórt hlutverk í sögum Gunnars Theodórs og þá ekki síst í sögum hans fyrir fullorðna lesendur. Í Köttum til varnar (2010) veltir hann fyrir sér loðinni stöðu gæludýra í borgarsamfélaginu og Sláturtíð (haust 2019) er litrík og fersk spennusaga sem hristir duglega upp í hugmyndum fólks um stöðu dýra í heimi þar sem maðurinn ræður lögum og lofum.