Gunnar Karlsson

Gunnar Karlsson

Gunnar Karlsson er Árnesingur að uppruna, fæddur í Efstadal í Laugardal 26. september 1939. Hann lauk kandídatsprófi í íslenskum fræðum með sögu Íslands að kjörsviðsgrein frá Háskóla Íslands 1970 og doktorsprófi frá sama skóla 1978. Hann kenndi Norðurlandasögu í University College í London 1974–76, var lektor í sagnfræði í Háskóla Íslands 1976–80 og prófessor 1980–2009. Hann var forseti heimspekideildar Háskóla Íslands 1981–83 og haustmisserið 1991, formaður Sagnfræðingafélags Íslands 1988–90 og sat í Forskningspolitisk råd á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar 1989–91. Þá ritstýrði hann Aldarsögu Háskóla Íslands sem kom út árið 2011.

Helstu rannsóknarrit Gunnars eru Frá endurskoðun til valtýsku (1972), doktorsritið Frelsisbarátta Suður-Þingeyinga og Jón á Gautlöndum (1977), Að læra af sögu. Greinasafn um sögunám (1992), Æska og saga. Söguvitund íslenskra unglinga í evrópskum samanburði (við annan mann, 1999), Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga (2004), þrjú bindi í Handbók í íslenskri miðaldasögu, I. Inngangur að miðöldum (2007), II. Landnám Íslands (2016) og III. Lífsbjörg Íslendinga frá 10. öld til 16. aldar (2009). Hann skrifaði hluta af þremur bindum fjölbindaverksins Sögu Íslands, II. (1975), IX. (2008) og X. (2009), heildaryfirlit um Íslandssögu á ensku, Iceland’s 1100 Years (2000) og ferðamannahandbók, Íslandssögu í stuttu máli sem hefur komið út á fimm tungumálum. Hann hefur skrifað námsbækur um Íslandssögu og sagnfræðiaðferðir, fyrir grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Fyrir námsbókaritun fékk hann viðurkenningu Hagþenkis árið 1989. Fræðilegar greinar Gunnars í tímaritum og greinasöfnum munu vera um 150 talsins.