Þú ert hér://Gerður Kristný
Gerður Kristný

Gerður Kristný

Gerður Kristný er fædd í Reykjavík 10. júní 1970. Hún lauk B.A.-prófi í frönsku með almenna bókmenntafræði sem aukafag frá Háskóla Íslands í febrúar 1992. Gerður stundaði nám í hagnýtri fjölmiðlun 1992-1993 og á eftir í starfsþjálfun hjá sjónvarpsstöð Danmarks Radio. Hún var ritstjóri tímaritsins Mannlífs á árunum 1998 til 2004 og hefur verið vinsæll lausapenni hjá ýmsum fjölmiðlum eftir að hún varð rithöfundur í fullu starfi.

Gerður hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, m.a. Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt, fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni Litrófs í Sjónvarpinu árið 1992, Bókaverðlaun barnanna árið 2003 fyrir Mörtu smörtu, Blaðamannaverðlaun Íslands árið 2005 fyrir bókina Myndin af pabba – Saga Thelmu og Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir Garðinn 2010. Gerður Kristný var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Höggstað árið 2007 og hlaut þau verðlaun fyrir ljóðaflokkinn Blóðhófni árið 2010. Gerði var boðið að vera fulltrúi Íslands á Ljóðaólympíuleikum í London sumarið 2012 og kom þar fram með fremstu skáldum allra landa sem tóku þátt í Ólympíuleikunum í borginni það sama sumar. Hún hefur verið boðin til fjölda ljóða- og bókmenntahátíða víða um heim og verið ötul að kynna íslensk ljóð og bókmenntir.

Ljóð og smásögur Gerðar hafa verið birt í kennslubókum fyrir grunn- og menntaskóla og í ýmsum safnritum, erlendum sem íslenskum. Ljóðaflokkurinn Blóðhófnir hefur gert víðreist um veröldina með höfundi sínum og  komið út í heilu lagi í Englandi og Danmörku og er væntanlegur bæði á sænsku og finnsku.