Bjarni Harðarson

Bjarni Harðarson

Bjarni Harðarson er fæddur í Árnýjarhúsi í Hveragerði á jóladag 1961. Hann ólst upp í Biskupstungum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1981. Hann  bjó í Reykjavík fyrstu árin eftir stúdentspróf en dvaldi einnig langdvölum í Palestínu, Indlandi, Austfjörðum og víðar. Bjarni lagði lítillega stund á nám í sagnfræði og þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hann starfaði við blaðamennsku og blaðaútgáfu frá 1983-2006 og stofnaði á þeim árum bæði Bændablaðið og Sunnlenska fréttablaðið.

Bjarni hefur búið í Flóanum frá 1988 og frá árinu 2006 hafa þau Bjarni og kona hans Elín Gunnlaugsdóttir rekið Bókakaffið á Selfossi og Bókaútgáfuna Sæmund. Í félagsstörfum má nefna að Bjarni var formaður Nemendafélagsins Mímis á Laugarvatni, stóð með fleirum að stofnun Sögufélags Árnesinga, hefur verið í forsvari fyrir Þroskahjálp á Suðurlandi um árabil, setið í nefndum á vegum sveitarfélagsins Árborgar og sat um tveggja ára skeið á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn. Þá kom Bjarni að uppbyggingu Draugaseturs á Stokkseyri og var ásamt Þór Vigfússyni frumkvöðull í leiðsögn á söguslóðir þjóðsagna.

Fyrsta bók höfundar var safn þjóðsagna úr Árnesþingi sem heitir Landið, fólkið og þjóðtrúin (2001). Þá hefur Bjarni gefið út fjórar skáldsögur sem heita; Svo skal dansa (2009), Sigurðar saga fóts (2010), Mensalder (2012) og Mörður (2014). Greinasafn höfundar Farsældar frón kom út 2009 og Króníka úr Biskupstungum 2014 en þar er byggt á gamalli hefð alþýðusagnfræði.