Margrét Tryggvadóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Reykjavíkurborg veitir nú Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í þriðja sinn. Þau eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og er ætlað að hvetja til metnaðarfullra skrifa fyrir börn og ungmenni og halda á lofti merkjum eins okkar ástsælasta barnabókahöfunda. Verðlaunaféð er ein milljón krónur. Borgarstjóri afhenti verðlaunin í Höfða við hátíðlega en fámenna athöfn í Höfða í dag og gladdi Snorri Helgason viðstadda með tónlistarflutningi.

Hátt á fjórða tug handrita bárust í samkeppnina í ár og var dómnefndin á einu máli um að handrit Margrétar Tryggvadóttur, Sterk, skyldi hljóta verðlaunin að þessu sinni. Í sögunni, sem er skrifuð fyrir unglinga, kveður við nýjan tón í íslenskum bókmenntum þar sem söguhetjan er transstúlka sem er að fóta sig í nýju lífi í Reykjavík, þangað sem hún er komin utan af landi til náms. Dómnefndina skipuðu þau Geir Finnsson, sem var formaður, Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Heiða Rúnarsdóttir.

Sterk kemur út í dag og er það Mál og menning sem gefur bókina út.

Hér er þakkarræða Margrétar:

„Borgarstjóri, dómnefnd, ágætu gestir,

Sögur eru okkur mannfólkinu eðlislægar og nauðsynlegar. Með þeim lærum við á heiminn og þær hafa alltaf fylgt okkur. Öll trúarbrögð byggja á sögum og lengst af voru sögurnar í munnlegri geymd og gengu þannig á milli kynslóða þar sem ákveðin minni eða frásagnarliðir flökkuðu á milli ólíkra sagna og menningarheima og voru löguð að bæði samfélaginu og áheyrendahópnum á hverjum tíma.

Bók er bara eitt form til að geyma og miðla sögum og frekar nýlegt. Hellamálverk segja sögur. Tölvuleikir líka sem og kvikmyndir, –  samfélagsmiðlarnir eru fullir af örsögum og framhaldssögum, brandarar á skólalóðinni eru sögur og dægurlagatextar oftar en ekki líka.

Við skilgreinum heiminn og stöðu okkar í honum út frá sögunum sem við lesum, heyrum og segjum.

Ef við ætlum að lifa hér áfram á þessari skrítnu eyju og halda áfram að vera menningarlega sjálfstæð þjóð, þurfum við að halda áfram að segja og skrifa sögur um okkur. Við sem örþjóð getum aldrei búið til nægilega margar góðar íslenskar bíómyndir eða tölvuleiki til að endurspegla íslenskt samfélag og fullnægja þörfum allra Íslendinga fyrir sögur um okkur en við getum svo sannarlega skrifað og gefið út nægilega margar góðar íslenskar bækur og þar stöndum við okkur býsna vel … nema kannski þegar kemur að bókum fyrir börn og ungt fólk. Í barnabókahillunni vantar svo margt. Okkur vantar góð fræðirit, bók um steina í náttúru Íslands, bækur um Spán, Egyptaland og Kína til forna, bækur um stráka að kyssast og stelpur af erlendum uppruna svo eitthvað sé nefnt. Íslensk börn eru einfaldlega of fá til að standa undir bókamarkaði og því er svo nauðsynlegt að opinberir aðilar styrki skrif barnabóka, myndlýsingar og útgáfu sérstaklega og stuðli að öflugri dreifingu í gegnum skólabókasöfn svo öll börn á Íslandi fái bækur sem henta sínum þroska og  áhugasviði, óháð því hvert það er, fjárhagsstöðu heimilisins, stétt eða uppruna. Lestur má aldrei verða elítusport hinna efnameiri.

Bækur fyrir börn og ungt fólk finnast mér mikilvægastar allra því þegar best lætur tekst þeim að lauma sér inn í ómótaða barnsvitundina og skilja þar eftir sig varanleg spor. Þær opna dyr að öðrum heimum, bera inn ljós, hugmyndir, mannúð, fróðleik og möguleika.

Hver kynslóð þarf sögur um sig og án góðra barnabóka verða engir lesendur í framtíðinni. Það er því mikið í húfi.

Án lesenda er íslenskan dauðamerkt. Stuðningur við barnabókmenntir er því ein besta fjárfesting fyrir íslenskt samfélag sem völ er á.

Börn og ungmenni eru fjölbreyttur hópur, með ólíkan smekk og þarfir. Því skiptir svo miklu að úrvalið sé ríkulegt og að bæði höfundar og útgefendur sinni öllum börnum. Þessi bók mín, Sterk, sem hér er verðlaunuð í dag er tilraun til að fylla upp í eitt af óteljandi götum í barnabókahillunni. Tilraun til að búa til sögu þar sem ákveðnir hópar sem lítið hefur verið skrifað um á íslensku áður, nema helst í fréttum, getur speglað sig í íslensku samfélagi. Fengið sögu um sig.

Því þannig verðum við að gera þetta. Það er eina leiðin. Við þurfum að halda áfram að segja sögurnar um okkur í okkar marg- og síbreytilega samfélagi. Sögur sem endurspegla okkur sjálf, samtímann og upprunann. Það geta engir aðrir gert það fyrir okkur. Ef við gerum það ekki erum við að segja börnunum okkar að þeirra líf sé ekki nægilega merkilegt í sögu og það eru hræðileg skilaboð.

Við sem köllum okkur barnabókahöfunda erum flest vel meðvituð um öll götin í barna- og ungmennabókahillunni og reynum af fremsta megni að fylla í þau með bókum um allt mögulegt.

En við höfum ekki undan. Flest öll sem köllum okkur barnabókahöfunda vinnum nefnilega líka við eitthvað annað því það er enginn vegur að lifa af því að búa til bækur fyrir börn. Tekjurnar verða að koma annars staðar frá ef við ætlum ekki að svelta.

Það er ekki síst þess vegna sem ég  vil þakka Reykjavíkurborg fyrir að standa að þessum mikilvægu og veglegu verðlaunum sem erum íslenskum barnabókahöfundum mikil hvatning – og auðvitað fyrir að veita mínu handriti sem nú er orðið að bók – verðlaunin að þessu sinni. Ég vil líka þakka konunni sem verðlaunin eru kennd við, Guðrúnu Helgadóttur, sérstaklega fyrir allar dásamlegu sögurnar sem hún skrifaði fyrir mig, börnin mín og börn framtíðarinnar. Hún hefur sannarlega verið mér mikilvæg fyrirmynd á marga vegu.

Kærar þakkir.“

Opnunartímar á Fiskislóð

Virkir dagar 10-18
Laugardagar 11-17
Sunnudagar 12-16

 

Sími í verslun á Fiskislóð 39: 575 5636

Sími á skrifstofu á Bræðraborgarstíg: 575 5600

Fylgstu með á facebook!

2021 © Forlagið | Bræðraborgarstíg 7, 101 Reykjavík | Sími 575 5600 | forlagid@forlagid.is | www.forlagid.is

INNskráning

Nýskráning

nýskráning