Sex þýðing­ar eru tilnefndar til Íslensku þýðinga­verðlaun­anna þetta árið. Verðlaun­in, sem eru veitt fyr­ir vandaða þýðingu á fag­ur­bók­mennta­verki, hafa verið veitt ár­lega frá 2005 en til þeirra var stofnað til að vekja at­hygli á ómet­an­legu fram­lagi þýðenda til ís­lenskra bók­mennta. Dóm­nefnd skipuðu Steinþór Stein­gríms­son, Brynja Cortes Andrés­ar­dótt­ir og Hild­ur Há­kon­ar­dótt­ir. Af­hend­ing þýðing­ar­verðlaun­anna er fyr­ir­huguð í fe­brú­ar á kom­andi ári.

Gunn­ar Þorri Pét­urs­son og Ingi­björg Har­alds­dótt­ir hlutu tilnefningu fyr­ir Hinir smánuðu og sví­virtu eft­ir Fjodor Dostoj­evskí sem For­lagið gef­ur út. Í umsögn dómnefndar segir: „Í verkum sínum skapaði Dostojevskí margar af eftirminnilegustu persónum bókmenntanna. Hinir smánuðu og svívirtu naut frá upphafi mikillar hylli en hún fæst við kunnugleg stef; ást og hatur, fyrirgefningu og þjáningu. Fyrir töfra höfundarins lifa hinar smánuðu, svívirtu og svívirðilegu persónur sögunnar áfram með lesandanum löngu eftir að lestri er lokið. Á máli sem er í senn gamalt og nýtt opnar lifandi þýðing Gunnars Þorra Péturssonar og Ingibjargar Haraldsdóttur 19. aldar Rússland upp á gátt fyrir íslenskum lesendum.“

Ein­ar Thorodd­sen var tilnefndur fyr­ir þýðingu sína á Víti úr gleðileiknum guðdómlega eftir Dante sem For­lagið dreif­ir. Seg­ir í um­sögn dóm­nefnd­ar að ára­löng glíma Ein­ars við ít­alska rím­formið, tersínu­hátt­inn, sem hann set­ur sér að vinna eft­ir, vera virðing­ar­verða og reyna veru­lega á þanþol tungu­máls­ins. „Þótt þýðand­inn beri ætíð virðingu fyr­ir upp­runa­verk­inu verður þýðing­in á köfl­um gáska­full og fjör­ug með óvænt­um og oft grínaktug­um til­vís­un­um í ís­lensk­an sagna­arf og þjóðsög­ur.“

Auk þeirra hlutu tilnefningu Elísa Björg Þor­steins­dótt­ir fyr­ir þýðingu sína á Etýður í snjó eft­ir Yoko Tawada, Ingi­björg Eyþórs­dótt­ir fyr­ir Hin óró­legu eft­ir Linn Ull­mann, Uggi Jóns­son fyr­ir Sælu­víma eftir Lily King og Hjalti Rögn­valds­son fyr­ir Þetta er Alla eft­ir Jon Fosse.

Forlagið óskar öllum tilnefndum þýðendum til hamingju.